21.03.1922
Neðri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (1276)

31. mál, kosning þingmanns fyrir Hafnarfjarðarkaupstað og skipting Gullbringu og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. meiri hl. (Gunnar Sigurðsson):

Hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) sagði, að Hafnarfjörður og Siglufjörður ættu sanngirniskröfu á því að fá sjerstakan þm. Það má vel vera, að það sje rjett, en jeg vil benda honum á það, að það er hægt að veita einum rjett þannig, að öðrum sje órjettur gerður um leið. Ef Hafnarfjörður og Siglufjörður eiga rjett á því að fá sjerstaka þm., þá eiga Eyrarbakki og Stokkseyri það ekki síður.

Hv. 2. þm. N.-M. (B. H.) vil jeg segja það, að óþarft var fyrir hann að skrifa undir nál. með fyrirvara. í því er ekkert ákveðið um heildartölu þm., og öll allshn. var á móti því að fjölga þm. í einstökum kjördæmum. Jeg er á móti fjölgun þm. yfirleitt. Án þess að jeg vilji beint heimfæra orð Ólafs þá upp á Alþingi, þá finst mjer fyrirgefanlegt, þó að mönnum fljúgi þau stundum í hug, orðin, „að því ver munu oss gefast heimskra manna ráð, er þau koma fleiri saman.“

Hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) kvaðst ekki vera svo mikill sparnaðarmaður, að hann vildi ekki sinna rjettmætum kröfum kjósenda sinna. Þetta held jeg að allir hv. deildarmenn geti undirstrikað, því að það er alkunna, að þessi háttv. þm. (St. St.) lætur sjer svo ant um hina trúu og heittelskuðu kjósendur sína, að hann mundi ekki láta sjer fyrir brjósti brenna að berjast fyrir órjettmætum kröfum þeirra, hvað þá ef þær eru nú rjettmætar.