01.04.1922
Neðri deild: 38. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í C-deild Alþingistíðinda. (1282)

67. mál, þingfararkaup alþingismanna

Magnús Jónsson:

Það eru að eins örfá orð viðvíkjandi því, sem hv. flm. (M. P.) sagði, að hann teldi óþarft, að frv. færi til nefndar. Með því ætlast hann víst til, að frv. sigli í gegnum þingið á spjehræðslu þingmanna. En mjer finst þetta mál þess vert, að það sje athugað í nefnd.

Þegar þm. ákveða sjer kaup, þá skilst mjer, að fleira liggi til grundvallar en ágirndin ein. Það er annað mikilsvarðandi atriði, sem allir verða að hafa í huga, og það er það, að fátækir menn geti eins gefið sig að þingstörfum og þeir ríku.

Á Englandi var það svo, að fram eftir öldum voru þingmenn launalausir og að eins efnamönnum einum kleift að gefa sig að þingstörfum. Þetta þótti óþolandi er stundir liðu, og tóku Englendingar það ráð að launa þingmönnum sínum vel.

Að vísu má svo segja, að frv. þetta snerti okkur ekki, eða þá þm., sem búsettir eru í Reykjavík, eins mikið og aðra hv. þm., og því get jeg einnig verið óhræddur að minnast á það.

En fátækir menn, víðsvegar um landið, geta átt erfitt aðstöðu að sækja þing, ef kaupið er lækkað. Þess vegna lít jeg á mál þetta sem þjóðþrifamál, er ekki má hrasa að í neinu, og því sjálfsagt að vísa því til nefndar. Það á líklega heima í allsherjarnefnd. (Margir: Fjárhagsnefnd). Mjer er sama; jeg geri það þá að till. minni, að því verði vísað að þessari umr. lokinni til fjárhagsnefndar.