23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

1. mál, fjárlög 1923

Atvinnumálaráðherra (Kl.J.):

Það er nú orðið áliðið, og vil jeg því ekki þreyta háttv. deild á langri ræðu. Enda er fátt af brtt., sem snerta mig sjerstaklega.

Það, sem jeg þó aðallega vildi tala um, eru brtt. við 16. gr. Jeg er háttv. fjvn. þakklátur fyrir það, að hún hefir lagt það til að hækka styrkinn til sandgræðslu um 3000 kr. Eftir því sem stjórn Búnaðarfjelags Íslands skýrir frá, miðar sandgræðslunni mjög vel áfram ár frá ári, og vona jeg þess vegna, að þessi tillaga nefndarinnar fái góðan byr í háttv. deild.

Þá hefir nefndin einnig lagt það til, að búnaðarfjelög gefi skýrslur um það, hvernig þau verji styrk þeim, sem þau fá. Þetta ákvæði tel jeg sjálfsagt, því það verður að tryggja hjer sem annarsstaðar, að öll skilyrði fyrir styrkveitingunni sjeu haldin.

Við þennan lið hefir komið önnur brtt. um það, að þessi styrkur verði feldur niður með öllu. Jeg á erfitt með að skilja, hvernig slík brtt. getur komið fram. Þessi styrkur hefir nú staðið um fjöldamörg ár; mundi það því valda miklum vonbrigðum, ef hann væri feldur nú; einkum má þó líta á það, að þessi styrkur kemur áreiðanlega að miklum notum. Hitt er ekki nema sanngjarnt, að stjórnin hafi eftirlit með því, að honum sje sem best varið.

Einn þm. úr Ed., sem jeg átti tal við í dag og nákunnugur er öllum búnaðarháttum, sagði, að þessum styrk mundi vera best varið af öllum þeim styrkjum, sem ganga til landbúnaðarins; væri það því ómaklegt að fella hann niður.

Háttv. fjvn. hefir engar brtt. gert við 14. tölulið e. í 16. grein, en getur þess í nefndarálitinu, að mikið ósamræmi muni vera í ullarmati, og vill hún, að það verði lagað.

Mjer er satt að segja ekki kunnugt um, við hvað háttv. nefnd á. (P.O.: Vestfirðingafjórðungur hefir verið afskiftur í ullarmatinu á undanförnum árum). Þakka fyrir upplýsingarnar, og vil jeg beita mjer fyrir því, að þetta ósamræmi verði lagað sem bráðast.

Þá hefir nefndin enn lagt það til, að orðabreyting verði gerð á einum lið, þannig, að fyrir „Fiskiveiðasjóðs“ komi „Fiskveiðasjóðs“. Þessi sjóður heitir „Fiskiveiðasjóður Íslands“, og efast jeg stórlega um, að rjett sje að breyta nafni hans þannig í fjárlögunum.

Þá er nýr liður við 16. grein, um að veita styrk til þess að leitast fyrir um markað fyrir fiskiafurðir erlendis. Jeg vil votta hv. nefnd þakklæti fyrir þetta, en vil þó geta þess, að jeg held, að sú upphæð, sem háttv. nefnd hefir stungið upp á, sje altof lág. Þeir, sem hafa ferðast erlendis, vita, að enginn ferðast langt fyrir 10000 krónur. Jeg vona því, að brtt. komi fram við þennan lið til 3. umr., um það að hækka styrkinn í 15000 eða helst 20000 kr.

Þá vil jeg sömuleiðas votta nefndinni þakklæti fyrir næsta nýja lið, um að veita Gísla Guðmundssyni gerlafræðingi styrk til þess að rannsaka kjötsölu og kjötverkun, og utanfararstyrk í sama skyni. Mjer er kunnugt um, að þessi maður er mikill dugnaðar- og áhugamaður og hefir auk þess mikla vísindalega mentun í sínum fræðum; má því búast við, að styrkurinn komi að góðum notum. Þess vegna legg jeg mikla áherslu á, að þessi liður verði samþyktur.

Um aðrar brtt. hefi jeg fátt eitt að segja; um 57. brtt. við 16. gr. 31. tölulið skal jeg aðeins geta þess, að mjer finst sjálfsagt og eðlilegt, að leiðbeinandi í húsagerð taki fult kaup, ef hann vinnur lengi á sama stað.

Þá er að síðustu brtt. um að veita 800 kr. styrk til þess að gera Eyrarfoss í Laxá laxgengan. Jeg er ekki svo kunnugur þessu máli, að jeg geti dæmt um nytsemi þessa styrks, en tel rjett, að þessi litla upphæð verði veitt.

Þá eru víst ekki fleiri brtt., sem jeg hefi ástæðu til að minnast á, og skal jeg því láta staðar numið.