03.03.1922
Neðri deild: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (1296)

40. mál, hæstiréttur

Flm. (Pjetur Ottesen):

Mjer kom það ekki á óvart, þó að það yrði nokkuð kastvindasamt í deildinni, ef einhver gerðist svo djarfur að koma með eitthvað, sem til sparnaðar heyrði, og þá allra helst ef það miðar að því að leggja niður eða sameina embætti. En jeg læt mjer það í ljettu rúmi liggja, þó að fyndnir menn skemti deildinni með slagorðum. Alvara málsins og nauðsyn er er mjer aðalatriðið. Hæstv. forsrh. (J. M.) var okkur flm., að því er hann ljet, sammála um sparnaðarnauðsynina, en ekki um frv., taldi það ekki nægilega undirbúið. Frv. er þó búið til af einum prófessornum við háskólann, og ætti það að vera næg trygging þess, að ekki fælist í því stjórnarskrárbrot, eins og hæstv. forsrh. (J. M.) var jafnvel að tæpa á. — Það ætti enn fremur að vera trygging fyrir því, að ekki væri stefnt með þessu til óvirðingar við háskólann, því að þessum manni er virðing hans viðkvæmt mál.

Annars er það einkennilegt, að stjórnin skyldi ekki bera fram frv. um breytingu á hæstarjetti, úr því að hún viðurkennir þörfina á því, og auðvitað hefði það verið æskilegast, því að stj.frv. eru að jafnaði og geta verið best undirbúin, og yfirleitt ætti stjórnin að hafa frumkvæði að sem flestum málum. En fyrst að stjórnin kom þessu ekki í verk, þá var eigi önnur leið fyrir hendi en að einstakir þm. hlutuðust til um það.

Þá hefir verið fundið að því, að frv. hafi ekki verið borið undir viðkomandi stofnanir. Þessi mótbára er nú slegin niður hvað háskólann snertir, en það mætti æra óstöðugan að bera frv. undir alla þá, sem þau kunna að snerta að einhverju leyti. — Hefir það og stundum litla þýðingu; t. d. man jeg það, að hæstarjettarfrv. 1919 var borið undir yfirrjettinn, en tillögum hans var lítið fylgt, eða að mig minnir helst að engu hafðar. Annars vona jeg það, að málið komist í nefnd, þrátt fyrir dauðadóminn, sem búið er að kveða yfir því hjer, jeg ætla að það væri af hv. þm. Dala. (B. J.). Það var nú svo sem auðvitað, að það hefði ekki þurft að nefna svona mikinn sparnað eins og af þessari sameining gæti leitt, til þess að það væri dauðasök að hans dómi. Gæti nefndin þá, ef henni sýndist svo, leitað álits hæstarjettar um málið. Jeg skal fúslega viðurkenna, að það væri ef til vill æskilegt, að umboðsvald og dómsvald sje sem mest aðskilið, en þetta frv. gengur ekkert í berhögg við það, því kensla er alt annars eðlis en venjuleg umboðsstörf, og lítil hætta held jeg stafi af því, að dómar verði litaðir, þó að hæstarjettardómendur hafi kynni af nemendum lagadeildarinnar.

Um ástæður hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) þarf jeg ekki mikið að ræða. — Það er að eins deila um orð. En spurningin er einungis um það, hvort þetta verði gott í framtíðinni, en hitt skiftir engu máli, hvaða nöfnum mennirnir eru nefndir. Er enda ekkert því til fyrirstöðu, ef þurfa þykir, að þeir kallist prófessorar í háskólanum, en hæstarjettardómarar í hæstarjetti. Annars tekur 1. gr. frv. af öll tvímæli um þetta, því þar er sagt, að hæstarjettardómendurnir komi að öllu leyti í stað prófessora lagadeildarinnar.

Þá taldi sami hv. þm. (M. J.), að heppilegra mundi, að ungir menn veldust að háskólanum í prófessorsstöður, en það væri ekki tilfellið með hæstarjett og rækjust því hagsmunimir hjer á.

Í hæstarjettarlögunum er nú aldurstakmarkið að neðan 30 ár, og fyr eru menn tæpast búnir að ná þeim þroska, sem nauðsynlegur er í kennarastöður, svo þessi mótbára hefir við ekkert að styðjast. Þá átaldi hann okkur fyrir það, að við værum með þessu að hnupla frá sparnaðarnefndinni, en rjettast er honum að láta okkur um það, og jeg geri ráð fyrir því, að undirtektir hans undir málið hefðu verið þær sömu hver sem flutti það.

Þá er það einnig sagt, að þetta sje ekki bráður sparnaður. — Það er rjett, hann verður ekki strax, en það verður það ekki heldur, þótt dómendunum sje fækkað En sparnaður getur komið strax þegar embætti losnar, og með þessu frv. er lagður grundvöllur til þess sparnaðar, er jeg fyr nefndi.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) þarf jeg fáu að svara. Allar till., sem í sparnaðaráttina hníga, finnast honum fáránlegar og hin mesta fjarstæða, og sama mun mega segja um hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.). Er því ekki ómaksins vert að eltast við að svara fjarstæðum og fleipri slíkra manna.