23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

1. mál, fjárlög 1923

Pjetur Þórðarson:

Mig langar til að gera hæstv. atvrh. (Kl.J.) skiljanlegt, hvers vegna jeg hefi komið með VI. brtt. á þskj. 131.

Jeg vil fyrst geta þess, að jeg veit ekki til, að mikið hafi verið athugað, hvernig búnaðarfjelögum í sveitum hefir farnast á síðustu árum. Jeg vildi því gefa ofurlítið yfirlit um það.

Árið 1914 fengu 166 fjelög styrk. Styrkupphæðin var alls 22000 kr. eða 132 kr. á hvert fjelag að meðaltali. Meðaltal dagsverka var það ár 893 á hvert fjelag. Árið 1915 sami styrkur alls, 168 fjelög, 835 dagsverk að meðaltali og 131 kr. að meðaltali styrkur til hvers fjelags. 1916 var enginn styrkur veittur. 1917 var styrkurinn 20000 kr. og eins næsta ár. Fyrra árið voru 177 fjelög, sem styrk fengu, en upphæðin ekki nema 113 kr. á hvert. Meðal dagsverkatala þá 705. 1918 fækkar dagsverkunum niður í 640, og fjelögum fækkar líka um 30 á því ári, svo að meðalstyrkur verður hærri en árið áður, eða 137 kr. Árið 1919 hækkar styrkurinn í 30000 kr., en fjelögum hefir fækkað niður í 122, svo að meðalstyrkur verður talsvert hæstur það ár. En dagsverkatalan er þá komin niður í 540 á hvert fjelag. Af þessu sjest, að fjelögum hefir fækkað til muna á þessu tímabili, dagsverkatalan hefir lækkað stórlega og styrkurinn er að meðaltali ca. 160 kr. á ári á fjelag, en lægst aðeins 113 kr.

Góður bóndi úr sveit sagði við mig, að það væri styrkurinn, sem hjeldi lífi í fjelögunum. Ef svo er, þá veitir ekki af að halda styrknum. En heldur þykir mjer bændur lítilþægir, ef 110–120 kr. geta haldið lífi í búnaðarfjelagsskap í heilum smærri eða stærri hreppi og ekkert annað.

En jeg átti hjer aðra brtt., sem atkv. voru greidd um í dag. Þar áleit jeg að styrkur kæmi að meiri notum, en flutti þessa um leið, til þess að sýna, að jeg vil ekki auka útgjöldin. Nú var hún feld, og þar sem jeg tel ekki þörf á að fella þessa upphæð niður nema því aðeins, að henni væri þá varið til nauðsynlegri hluta, þá tek jeg hjer með VI. brtt. á þskj. 131 aftur.

Jeg á aðra brtt. á sama þskj. Það er VIII. liðurinn. Þetta er nokkuð afskekt jörð við fjallveg milli Dala- og Mýrasýslu. Þetta er lítil upphæð og sömu tegundar og nokkrar aðrar upphæðir í frv., þar sem þessi á að koma inn í það; en í stað þess að þær standa í fjárlögum ár frá ári, þá er farið fram á að hún komi aðeins eitt skifti, og vil jeg mælast til að deildin sýni þessari litlu brtt. velvild.

Fyrst menn leggja hjer kapp á að breyta alviðurkendum og löggiltum nöfnum, þá má benda á prentvillu eða ritvillu, sem er í 65. lið a í brtt. nefndarinnar. Bærinn. sem þar getur, heitir Áslækur, en ekki Árlækur.

Þá vildi jeg spyrja háttv. þm. Borgf. (P.O.), hvort það er að tilhlutun hlutaðeigenda að liðurinn 65 b í sömu brtt. er fram kominn. (P.O.: Já). Það þykir mjer undarlegt. Ekki svo að skilja, að það geri mikið til, heldur virðist mjer frekar eins og verið sje að gera þar að gamni sínu.