15.04.1922
Neðri deild: 48. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (1312)

40. mál, hæstiréttur

Forsætisráðherra (S. E.):

Það er nú viðurkent í þessu máli, að ef frv. þetta yrði samþ., þá er dregið úr eða slept ýmsum tryggingarákvæðum, sem löggjöfin hefir sett til þess að tryggja hæstarjett. Þannig yrðu dómararnir kjörgengir til Alþingis, vegna þess, að þeir samkvæmt frv. hafa umboðsstörf á hendi.

Það er rjett hjá hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að um það hefir verið deilt, hvort rjett væri að svifta dómara hæstarjettar kjörgengi, en sú varð þó niðurstaðan, að þetta var ákveðið í stjórnarskránni.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) fjelst á, að það væri ekki rjett, að ungir menn væru skipaðir dómarar í hæstarjetti, og jeg skildi hann svo, að hann teldi lífsreynsluna það undirstöðuatriði fyrir dómarana, sem ekki mætti frá víkja. Jeg geri nú ekki ráð fyrir því, að ungir menn yrðu settir í hæstarjett, þó að þetta frv. yrði að lögum, enda sjest á hæstarjettarlöggjöfinni, að slíkt getur ekki komið til nokkurra mála, þar sem skilyrðin fyrir að verða hæstarjettardómari eru svo þröng, þar sem menn áður verða að hafa haft embætti á hendi, sem menn venjulega ekki komast í fyr en eftir langa reynslu. En einmitt af þessu leiðir, að gamlir menn mundu verða kennarar í lagadeild háskólans. En þá er spurningin: Hvernig fer um lagadeildina? Hvernig fer um kensluna þar? Þetta atriði vil jeg biðja hv. deild að athuga grandgæfilega. Jeg skal benda á eitt dæmi: Áður en Lárus H. Bjarnason tók við kenslu í lagaskólanum, þótti beinlínis nauðsynlegt og sjálfsagt, að hann stundaði lögfræði um vissan áratíma erlendis; þó þótti hann mesti áhugamaður í sinni grein. Þetta sýnir greinilega, að mönnum var þá ljóst, og ætti að vera það enn, að gamlir sýslumenn og aðrir reyndir lögfræðingar hafa engin skilyrði til að taka við prófessoraembættum, án sjerstaks undirbúnings. Og með þessu móti hefir háskólinn, eða lagadeild hans, engin skilyrði fyrir að geta nokkurn tíma eignast vísindamenn.

Mjer skildist á hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að hann virti vettugi þessa hlið málsins, en teldi mest um það vert, að lögin væru kend praktiskt. En ef lagakenslan yrði aðeins hrein og bein manuduktion, þá er jeg hræddur um, að lögfræðingum okkar færi brátt að hraka. Aðalmarkmið kenslunnar er auðvitað að kenna mönnum hinar vísindalegu aðferðir til þess að skýra lögin og þroska hugsun þeirra. Því hin praktisku tilfelli lífsins eru svo óteljandi, að enginn getur lært þau. Aðalatriðið er að læra að skýra lögin. Og hin vísindalega kensla hjálpar aðallega til þess.

Prófessorar eiga ekki að vera manuduktörar, heldur sjálfstæðir og vísindalega starfandi menn, og jeg veit líka, að prófessorarnir við háskóla vorn skilja embætti sín á þann hátt.

Nei þá vil jeg margfalt heldur fækka dómendunum í hæstarjetti, og jafnvel prófessorunum við lagadeildina líka, heldur en að eyðileggja bæði háskólann og hæstarjett með þeirri sameiningu, sem hjer er að ræða um.

Það myndi líka reka að hinu sama og þegar lagaskólinn var stofnaður hjer í landi. Þá varð að veita sýslumanninum, sem settur var fyrir lagaskólann, sjerstakan námsstyrk til undirbúnings.

Mjer þótti leiðinlegt að heyra, að hv. 3. þm. Reykv (J. Þ.) skuli vera sammála þeim röddum, er til sín hafa látið heyra um það, að það hafi ekki verið rjett að flytja hæstarjett inn í landið. Um þetta ætla jeg þó ekki að deila, en benda að eins á það, að flutningur hæstarjettar inn í landið var eitthvert stærsta áhugamál þjóðarinnar í sjálfstjórnarbaráttunni.

Með þessu var þó ekki, og er ekki heldur nú, verið að efast um, að hæstirjetturinn danski sje góður dómstóll. Hitt er kunnugt, að örðugt þótti að fara með málin fyrir hæstarjett, enda það eitt, að málin þurfti að þýða á aðra tungu, mjög svo mikill galli, því ekki þarf mikla ónákvæmni í þýðingu til þess að það beinlínis hafi áhrif á úrslit málsins. Það þótti líka dýrt á þeim árum að flytja mál í Danmörku.

Auk þess er og hverri þjóð eðlilegast að hafa sinn æðsta dómstól í landinu sjálfu.

Jeg man eftir því, að um það leyti, sem sjálfstæðismál okkar var til lykta leitt, þá var jeg staddur niðri í Danmörku og átti þar tal við merkan og lærðan mann danskan, sem hjelt því eindregið fram, að þá yrði nú lítið úr sjálfstæði Íslands, ef við ljetum það dragast lengi að flytja hæstarjett inn í landið.

Þetta er nú orðið, og óþarfi að deila um það frekar, enda býst jeg við, að þeir muni fáir verða, sem vilja nú flytja hann út úr landinu.

En það er satt að málaflutningur fyrir hæstarjetti hefir orðið nokkuð dýr, og jafnvel óþarflega dýr, enda var lítill undirbúningur málsins og kannske ónógur. En þetta getur alt staðið til bóta, og því sjálfsagt að endurskoða alt fyrirkomulagið. Held jeg því, að miklu væri rjettara, að stjórnin undirbúi málið í ráði við rjetta aðilja, en þingið fari ekki að útkljá það nú, enda er það beint á móti till. hæstarjettar og prófessoranna við lagadeildina.