15.04.1922
Neðri deild: 48. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (1315)

40. mál, hæstiréttur

Bjarni Jónsson:

Hv. frsm. meiri hl. (J. Þ.) vildi ekki fallast á nema sumt af því, er jeg hafði fram borið á móti frv. þessu, og er það ekki nema von, þó að hann ljeti ekki að öllu sannfærast við fyrstu atrennu.

Hann virðist nú hafa gengið inn á að með frv. sje 30. gr. stjórnarskrárinnar brotin, enda andmælti hann ekki hið minsta minni skoðun á þessu efni. Aftur á móti var hann að reyna að færa sönnur fyrir því, að 56. gr. stjórnarskrárinnar væri ekki brotin með frv., en rökin rugluðust eitthvað í höfði honum, þegar hann vitnaði í það, sínum málstað til styrktar, að ekki þyrfti annað en að hafa eftir mín orð, en þau voru á þá leið, að 56. gr. stjórnarskrárinnar væri ótvírætt brotin.

Ef dómarar eiga að skera úr ágreiningi um embættistakmörkun yfirvalda, þá þurfa þeir að vera óháðir. En það eru þeir ekki, ef þeir eiga að skera úr deilu milli háskólans annars vegar og ríkisstjórnarinnar hinumegin, því að þá eru þeir málsaðiljar fyrir háskólans hönd. Samkvæmt þessu verða dómararnir óhæfir til dóms eftir 56. gr. stjórnarskrárinnar, og er ekki nema eðlilegt. Þó að dómararnir verði ekki settir af, þá verður ekki bygt fyrir það, að þeir geti orðið hlutdrægir einhverri stjett. — Háttv. frsm. meiri hl. (J. Þ.) afsannaði því ekkert af því, sem hann vildi þó gera, og jeg hafði haldið fram, enda er það fullkomlega sannað, að báðar þessar gr. stj.skr., sem jeg nefndi, eru brotnar.

Þá þóttist hv. frsm. meiri hl. (J. Þ.) einn mega af viti mæla og þekkingu í þessu efni. Þetta þykir mjer undarlega mælt og drjúglega, af því að jeg þekki að nokkru þann mentunargraut, sem hann hefir notið, og veit, hver okkar er færari að dæma í þessu máli.

En þó að þekking hans sje takmörkuð, ætti hann þó, sem skólagenginn maður, að vita, að kennara og dómara er ekki hægt að velja eftir einni og sömu reglu. Kennari, þótt ágætur sje, getur orðið ljelegur dómari, eins og líka hitt, að góður og margreyndur dómari getur verið að öllu leyti óhæfur kennari. Þetta veit líka háttv. frsm. meiri hl. (J. Þ.), þó að hann hafi kosið nú um stund að halda öðru fram. Og hann veit líka, að kennarar verða að skilja hlutverk sitt og að prófessorarnir í lagadeild háskólans eiga jafnframt að vera vísindamenn. Þetta hafa þeir skilið prófessorarnir Einar Arnórsson og Ólafur Lárusson. Þeir hafa aldrei skoðað kensluna sem aðalhlutverk sitt, enda eru báðir ágætir vísindamenn.

Annars hafa engin köpuryrði hrotið í minn garð, svo jeg þarf ekki að gjalda neinum rauðan belg fyrir gráan. En það læt jeg segja mjer þrisvar, ef annað eins frv. og þetta nær fram að ganga.