15.04.1922
Neðri deild: 48. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í C-deild Alþingistíðinda. (1317)

40. mál, hæstiréttur

Jakob Möller:

Jeg er fullviss þess, að ef háttv. flm. frv. hefði verið það ljóst, að hæstarjettardómendum væri veitt kjörgengi með frv. þessu, þá mundu þeir aldrei hafa borið frv. fram. Og hins vegar getur enginn vafi verið á því, að þetta frv. er brot á stjórnarskránni. Ákvæði 30. gr. stj.skr., um að dómendur, sem ekki hafa umboðsstörf á hendi, skuli ekki vera kjörgengir, er þar öllum vitanlega sett fyrst og fremst í þeim tilgangi að gera einmitt hæstarjettardómendurna ókjörgenga. Ákvæðið þýðir beinlínis það, að hæstarjettardómendur sjeu ókjörgengir til Alþingis. Með þessu frv. er því verið að fara í kring um það, og er það vitanlega óheimilt.

Það er ekki rjett hjá hv. þm. Borgf. (P. O.), að hæstarjettardómari Lárus H. Bjarnason sje skipaður lagaskólakennari. Hann er að eins settur, svo að hjer er um ekkert brot á stjórnarskránni að ræða, því að ákvæði hennar fyrirbyggja það ekki, að umboðsstarfalausir dómarar gegni umboðsstörfum í bili; en hins vegar öðlast þeir vitanlega ekki kjörgengi, þó að þeim sje falið slíkt starf um stundarsakir. Eitt atriði er það í máli þessu, sem mjer þykir ekki hafa verið lögð nægileg áhersla á, og það er traustið á dómstólnum út á við. Það er mjög hætt við því, að það minkaði, ef það fyrirkomulag kæmist á, að dómarastörfin yrðu beinlínis „að lögum“ unnin í hjáverkum, sem þau hlytu að verða með þessu fyrirkomulagi, því að kenslan útheimtir starfskrafta mannsins alla, ef hún er vel stunduð, og dómararnir mundu aldrei fá heilan dag, allan ársins hring, til þess að gefa sig óskifta við dómarastörfunum. En mistu útlendingar traustið á æðsta dómstól vorum, gæti það orðið okkur óendanlegt tjón.