15.04.1922
Neðri deild: 48. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (1321)

40. mál, hæstiréttur

Frsm. meiri hl. (Jón Þorláksson):

Út af ummælum háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) vil jeg taka það fram, að jeg var ekki að saka hann um neitt sjerstakt brot á stjórnarskránni, eins og hann virðist ætla, heldur sýndist mjer að eins, að hann mundi ekki öðrum betur fallinn til þess að skýra stjórnarskrána fyrir háttv. þm. Brigslyrði hans um ósæmilegan fjárdrátt í atvinnu minni læt jeg mjer liggja í ljettu rúmi, af því að í þeim efnum hefi jeg algerlega hreina og góða samvisku. Þess vegna get jeg líka leyft mjer að vera ómyrkur í máli og óhlífinn við aðra, hvenær sem mjer býður svo við að horfa, af því jeg veit að á því svíði, sem hann nefndi, er jeg ósæranlegur. En ef jeg vissi mig veilan fyrir þar, mundi mjer eins auðvelt og hverjum öðrum að fá mjer silkitungu og tala það eitt, sem gæti aflað mjer velvildar.

Það hefir nokkuð verið deilt um það, hvort kensla teldist til umboðsstarfa eða ekki. Nefndin ræddi þetta og var sammála um það, að kenslan teldist til þeirra, enda þótt að óefað sje, að stjórnarskrárgjafinn hafði önnur umboðsstörf í huga, er hann setti ákvæðið. Er því ekki efi á því, að hæstarjettardómendur fá kjörgengi, ef frv. þetta verður að lögum. En það er hvergi bannað í stjórnarskránni, að hæstarjettardómendur sjeu kjörgengir. Í 30. gr. stendur aðeins, að þeir dómendur, sem ekki hafa umboðsstörf á hendi, skuli ekki vera kjörgengir. Hjer er því um ekkert stjórnarskrárbrot að ræða og í engu brotið í bága við skýr orð stjórnarskrárinnar.

Háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) var að tala um hina miklu ósjerplægni hjá prófessorum og dómendum í því að leggjast á móti frv. Þetta lá ekkert fyrir til umræðu og enginn neitt að því vikið, en úr því að hann mintist á þetta, má geta þess, að það er víst, að hvenær sem tiltekinn embættismannaflokkur er spurður um það, hvort hann vilji auka við sig störfum, þá legst hann á móti því. Hvað viðvíkur traustinu á æðsta dómstól vorum út á við, sem margir hafa spáð að mundi minka ef sameining þessi yrði, skal jeg taka það fram, að jeg er ekki svo vel að mjer í stjórnarfyrirkomulagi veraldarinnar, að jeg treysti mjer til að segja um þetta eða benda á alveg hliðstætt dæmi, en þó veit jeg ekki betur en að í Englandi sje æðsta dómsvald í ýmsum flokkum mála í höndum manna, sem hafa dómarastarfið í hjáverkum, og veit jeg ekki til, að þetta hafi veikt traustið á rjettlæti dómanna í þeim málum.