15.04.1922
Neðri deild: 48. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (1322)

40. mál, hæstiréttur

Bjarni Jónsson:

Viðvíkjandi orðalagi 30. gr. stjórnarskrárinnar vil jeg benda á, hvernig það er til komið.

Hugir þeirra manna, er stjórnarskrána sömdu, beindust að því, að rjett væri að aðskilja umboðsvald og dómsvald. Kusu þeir því að hafa orðalag gr. svo rúmt, að hægt væri einnig að taka lægstu dómstólana þar undir, ef svo sýndist gerlegt síðar, og því var enginn viss dómstóll undanskilinn. En það var aldrei tilgangurinn, að umboðsstarfalausum dómendum yrði fækkað, heldur var einmitt búist við, að þeim mundi fjölga með því að aðgreina umboðs- og dómsvaldið niður á við. Vegna þessa er orðalag greinarinnar svo sem það nú er. Enginn efi er á því, að kenslan er umboðsstarf. Skiftir engu, þótt stjórnarskrárgjafinn hafi aðallega haft fyrir augum umboðsstörf sýslumanna, en því tók hann ekki sjerstaklega fram um kensluna, að honum kom ekki til hugar, að gera þyrfti ákvæði um slíkt, líkt eins og Sólon ákvað enga refsingu við föðurmorði, sökum þess, að hann vildi ekki minna menn á þann voðaglæp með því að ákveða refsingu við honum.

Jeg er samþ. hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) um það, að kapp verði að leggja á það, að æðsti dómstóll vor njóti hinnar mestu virðingar út á við sem unt er, en um nauðsynina á trausti landsmanna sjálfra til hans hefi jeg áður talað, svo að jeg fjölyrði ekki um það nú.