23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

1. mál, fjárlög 1923

Eiríkur Einarsson:

Jeg var ekki viðstaddur er háttv. frsm. (B.J.) fór yfir sögu, en jeg heyrði, að hann hefði vísað til okkar, sem hlut eigum að máli um brtt. Þær brtt., sem snerta mig, eru brtt. við 21. gr., a- og d-liðir. Hin fyrri er lánveitingin, sem háttv. þm. Ak. (M.K.) mintist svo hlýlega, 5000 kr. til að koma upp smjörlíkisgerð við Áslækjarrjómabú. Þarna var fyrrum rjómabú, en það hefir nú lagst niður, sem flest önnur. En nú vilja bændur í Hrunamannahreppi gera tilraun til smjörlíkisgerðar í sambandi við rjómabúið, en þurfa til þess lánsfje með þolanlegum kjörum. Hefir sá maður. sem talinn er einn mestur hyggindabóndinn þar í sveit, beðið mig að flytja þetta. Er hann því á gagnstæðri skoðun um nauðsynina og háttv. þm. Ak. (M.K.), og sannar það einna best, hve góðgjarnar og viturlegar till. þessa háttv. þm. eru.

Ekki þarf að óttast, að þessi smjörlíkisgerð yrði hættulegur keppinautur við smjörlíkisgerðina hjer í Reykjavík, því að bæði er staðurinn um 100 km. hjeðan og auk þess er á það að líta, að þótt þessi tilraun hepnaðist vel, yrði framleiðslan ekki meiri en svaraði smjörlíkisþörfinni eystra, er á hvorttveggja er litið, að þar eru mannmörg kauptún, og myndi þetta heimafengna smjörlíki koma þeim að góðum notum, og svo er hitt, að þetta ætti að verða bændum hvatning til sparnaðar á hinni dýru vöru, smjörinu; sannar það breytni bændastjettar nágrannaþjóðanna, svo sem Dana, er gæta hins ítrasta sparnaðar við smjörframleiðslu sína. Ættu þessar mótbárur því síst að koma úr þeirri áttinni, er hæst lætur í sparnaðartálknunum.

Háttv. fjvn. var svo víðsýn að hún skildi þessa virðingarverðu dugnaðarviðleitni, og jeg hygg að þessar mótbárur háttv. þm. Ak. (M.K.) stafi af því að hann gerist nú syfjaður og viti eigi glögga grein á því, sem hann segir, og er það afsökun.

Hin brtt. er 11000 kr. lán til kaupa á læknissetrinu Laugarási. Hjeraðslæknir hefir nú látið af embætti, en situr áfram í Skálholti. Er þetta hin haganlegasta jörð til þessa. Eru þar hverir og laugar, sem að gagni kæmi, ef sjúkrahús væri þar bygt síðar.

Hefðu hlutaðeigendur haft þörf fyrir hærri styrk, því að bærinn er í rústum; en þeir vildu gæta hófs og fara aðeins fram á þetta lán, í vændum þess, að það fáist örugglega. Vænti jeg fastlega, að háttv. deild samþykki báðar þessar till., því að hjer er aðeins að ræða um lán gegn fullri tryggingu, og mesta nauðsyn er á hvorutveggja.