18.02.1922
Neðri deild: 4. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í C-deild Alþingistíðinda. (1347)

8. mál, kennaraskóli

Bjarni Jónsson:

Jeg hafði hugsað mjer að segja nokkur orð þegar við þessa umr., en heita skal jeg því að vera stuttorður. Ætlast jeg til, að orð mín verði fyrirspurn til hæstv. stjórnar, en þó um leið bending til háttv. mentmn.

Jeg sje, að lengdur er námstími við skóla þennan og kostnaður aukinn. Og þar sem þetta er óþarfakostnaður með öllu, verð jeg að vera á móti þessum breytingum. Það má nú vera, að það sje trú einhverra, að jeg sje hingað kominn til þess að ausa fje úr ríkissjóði, en það vil jeg ekki, og allra síst þegar svo er háttað eins og hjer, að gera má skólann betri og fullkomnari með styttri námstíma og færri kennurum.

Fyrirkomulag skóla þessa er rangt og fjarri sanni grundvöllur hans. Það á ekki að kenna það sama í kennaraskóla og kent er í öllum öðrum skólum; þangað eiga þeir einir að sækja, er gagnfræðamentunar hafa notið, og bæta þar aðeins við sig sjernáminu.

Einkennilegt þykir mjer það, að sú fræði er eigi nefnd í frv., sem mest þörf væri þó á að kend væri í kennaraskóla, er það sálarfræði eða þekking á þeim andlegu kröftum, sem í manninum búa. Er fræði þessi nú einungis kend í háskólanum, en vitanlegt má það hverjum manni, að kennurum er hin mesta nauðsyn að vita nokkur deili á grein þessari, því að sá kennari, sem eigi skilur hugarhræringar barnsins, gleði þess og sorgir, er ófær kennari. Stendur eigi á sama, hvernig er ritað á þessa óskrifuðu vaxtöflu í fyrsta sinni, en það er verk kennaranna, og skiftir því mestu máli, að þeir kunni þá fræðigreinina, sem mest er undir komið.

Ef kennararnir kæmu með gagnfræðamentun í kennaraskólann, þá gætu þeir varið öllum tíma sínum til þess að iðka sálarfræði, uppeldisfræði og kensluæfingar Annars er mjer það eigi vel ljóst, hvort það er tilgangurinn samkvæmt frv., að komið verði á fót sjerstökum barnaskóla, til æfinga fyrir kennaraefni. Væri svo, sýnist það óþarfakostnaður, því að innan handar er kennurum að fara með kennaraefni í barnaskólann og æfa þau þar.

Hefi jeg sagt þetta til þess, að nefndin og hæstv. stjórn gæfist kostur á að athuga þessar bendingar, og vona jeg, að þær verði teknar til greina.