23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

1. mál, fjárlög 1923

Gunnar Sigurðsson:

Það hafa ýmsir látið í ljósi óánægju sína yfir fjárlagafrv., en þótt mjer þyki það nokkuð sviplítið hvað verklegar framkvæmdir snertir, þá skal jeg virða þá viðleitni háttv. nefndar, að reyna að afgreiða fjárlögin sem tekjuhallaminst.

Jeg vil þakka nefndinni fyrir það, að hún hefir hækkað tillagið til sandgræðslu í 2. lið 16. gr. Það er mjer mjög mikið áhugamál, að það tillag. sje sem hæst. Þessi hækkun er gleðilegur vottur þess, að augun eru farin að opnast hjá þm. fyrir því, að það sjeu viturlegar jarðabætur að hefta sandfok og græða út nýgróður á sandsvæðinu.

Jeg mun bera fram brtt. við 3. umr., er breytir að nokkru tillagi landeigenda, ef sjerstakar ástæður eru fyrir hendi, en því mun jeg nánar gera grein fyrir þá.

Jeg vil ennfremur þakka háttv. fjvn. fyrir að hafa tekið ekkju Þorsteins sál. Erlingssonar inn í 18. gr., því jeg hefði talið það illa farið, hefði sú smáa fjárveiting fallið niður.

En sjerstaklega vil jeg þakka nefndinni fyrir að hafa tekið aftur þá till. sína við 18. gr., að vilja helminga dýrtíðaruppbótina á þeim, sem í þeirri grein standa, því það hefði komið niður á ekkjum og munaðarleysingjum, og hefði það verið að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur.