16.03.1922
Neðri deild: 24. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (1359)

8. mál, kennaraskóli

Frsm. (Jón Þorláksson):

Jeg hefi eiginlega engu við nál. að bæta.

Frv. er borið fram í því skyni að auka mentun kennaranna. Mentamálanefnd var nokkurn veginn sammála um, að í rauninni væri full ástæða til þess, þar eð ekki eru gerðar hærri kröfur til mentunar kennara en að þeir taki próf eftir 18 mánaða veru í kennaraskóla, en til þess að komast þangað þurfa þeir litlu eða engu meiri mentun en krafist er til fermingar, en með þessu prófi er þeim veittur forgangsrjettur til kennaraembætta við alþýðuskóla.

Annars voru skiftar skoðanir um, hvort rjettara væri að lengja námsskeiðið, eins og farið er fram á í frv., svo að það yrði 30 mánuðir, eða að auka kröfurnar um þekkingu við inntöku í skólann.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri tímabært að gera breytingu á þessu fyrirkomulagi nú sem stæði, af ástæðum, sem skýrt er frá í nefndarálitinu.

Þar við skal jeg eingöngu bæta, að það má ráða dálitla bót á þessu, ef nauðsyn krefur, án þess að gera nokkra breytingu á lögunum, þar sem skólastjórnin hefir í hendi sjer að herða á kröfunum, sem gerðar eru til inntöku í skólann.

Nefndinni þykir ekki tímabært að gera þessa breytingu vegna aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð og nemendur sjálfa, sem líka mundu illa færir um að bera þann kostnað, meðan dýrtíðinni er ekki frekar af ljett en orðið er. Gæti farið svo, að aðsóknin að skólanum minkaði um of, ef frv. yrði nú gert að lögum.