16.03.1922
Neðri deild: 24. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (1366)

47. mál, myntlög

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg hefi leyft mjer að bera þetta frv. fram af þeirri ástæðu, að mjer þykir það of lengi hafa staðið, að engin lög um íslenska mynt sjeu til. Eins og kunnugt er, höfum við til þessa orðið að notast við danska mynt, en þess er nú engin þörf lengur. Því samkvæmt sáttmálanum milli þessara tveggja ríkja er Íslendingum nú heimilt, ef þeir vilja, að hafa sína eigin peningasláttu. Þurfum við þá ekki annað en að gera samninga við Norðmenn og Svía um samskonar myntsamband og nú er á milli þessara þjóða. Jeg tel mjög æskilegt, að þessir samningar verði gerðir sem fyrst, og vildi því gjarnan, að frv. þetta næði fram að ganga. Og þó ekkert annað verði fyrst um sinn aðhafst í málinu en að stjórnin geri þessa samninga, þá vildi jeg hrinda þeim af stað með þessu frv.

Nú stendur svo á, að mikil vandræði hafa verið hjer upp á síðkastið með smápeninga til skifta. Stafa þau af því, að einstakir menn hafa safnað saman silfurpeningum, til þess að geta sent þá utan, affallalaust, og borgað með erlendan varning. Myndu þessi lög meðal annars ráða bót á þessu. Því þegar er þau eru gengin í gildi, þá getur stjórnin látið slá innlenda peninga til skifta.

Það er að vísu nýlega komin fram þál.till. í þessa átt, en þetta ætti ekki að koma í neinn bága við það, heldur hið gagnstæða.

Vonast jeg svo til þess, að stjórnin láti rjetta aðilja annast þessa samninga og vindi eins bráðan bug að þessu og unt er.

Geri jeg það svo að till. minni, að málinu verði, að lokinni umr., vísað til viðskiftamálanefndar.