16.03.1922
Neðri deild: 24. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í C-deild Alþingistíðinda. (1367)

47. mál, myntlög

Magnús Jónsson:

Það er langt frá því, að jeg sje mótfallinn þessu frv., sem háttv. þm. Dala. B. J.) hefir nú borið hjer fram. En hins vegar verð jeg að vefengja skoðun hans á sambandi þess við þál.till. þá, um innlenda skiftimynt, sem jeg hefi nýlega borið fram hjer í þessari hv. deild. Eins og hv. flm. (B. J.) tók fram, þá er það aðalmarkmið þessa frv. að ná samkomulagi við önnur ríki um myntsamband innbyrðis. Þótt nú ný smámynt væri slegin samkvæmt þessum lögum, þá mundi hún ekki tolla hóti betur í landinu en silfurpeningar þeir, sem verið hafa hjer í veltunni, en nú eru að þrotum komnir.

Þetta er hvorttveggja nauðsynjamál, hvort á sínu sviði, en það má ekki blanda þeim saman. Þótt hv. deild vilji líta þetta frv. góðu auga, yrði samt að bæta úr hinni brýnu þörf með útgáfu smámyntar, sem ekki væri gjaldgeng nema innanlands. — Í þessu sambandi skal jeg leyfa mjer að benda á, að skorturinn á smámynt er orðinn svo mikill, að það þolir enga bið, að úr honum verði bætt. En um þetta mál, sem hjer liggur fyrir, má búast við miklum umræðum, tilraunum og samningum í sambandi við það, sem eigi yrði lokið í bráð.

Jeg mun mega leyfa mjer að segja svo mikið úr viðskiftamálanefndinni, að málinu er lokið þar og aðeins ókomið hjer í háttv. deild aftur. Vona jeg, að það fái góðar og fljótar undirtektir, en þessi tvö mál eru alveg óháð hvort öðru.