25.03.1922
Neðri deild: 32. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í C-deild Alþingistíðinda. (1376)

47. mál, myntlög

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Þótt svona sje tekið til orða í nefndarálitinu, er þó alls ekki ætlast til, að við tökum að okkur myntsláttuna hvernig sem á stendur, heldur eingöngu þegar hentugleikar leyfa og vissa er fengin fyrir, að við getum gert það okkur að skaðlausu fjárhagslega. Einhvern tíma hlýtur að reka að því, að við tökum myntsláttuna í okkar hendur, og sjálfsagt, að við gerum það við fyrsta tækifæri, sem býðst, án fjárhagslegs tjóns fyrir ríkissjóðinn. Þótt við tökum myntsláttuna í okkar hendur, þurfum við ekki að hafa myntsmiðju hjer heima, heldur getum við eins fengið það gert í öðrum löndum. Ef til þess kemur, að við þurfum að flytja inn gull, t. d. til tryggingar bankaseðlum, virðist sjálfsagt, að við látum mynta það sjálfir.