25.03.1922
Neðri deild: 32. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (1377)

47. mál, myntlög

Jón Þorláksson:

Jeg þurfti ekki að spyrja um, hvað stæði í nefndarálitinu, því jeg hefi það fyrir framan mig, en háttv. frsm. (J. A. J.) kom ekki með neina ástæðu aðra en þá, eð sláttan væri heimiluð í sambandslögunum. En það er engin ástæða. Þótt við höfum leyfi til að slá mynt, er engin ástæða til að við gerum það, nema ef við höfum gagn af því, en jeg held, að okkur farnist ekkert betur, þó við höfum myntir með íslenskri áletran. Því fylgir að sjálfsögðu mikill kostnaður, en enginn hefir bent á neinn hagnað við það.

Jeg hefi eingöngu staðið upp af þeirri ástæðu, að ef mótmælum hefði ekki verið hreyft, mundi nefndarálitið síðar verða tekið sem ástæða fyrir því, að stjórninni bæri að gera gangskör að málinu. Svo mundi hvert sporið reka annað. Er myntsláttan væri fengin, mundu menn vilja flytja hana inn í landið o. s. frv.

Jeg held, að meðan ekki kemur fram gild ástæða fyrir, að okkur sje betra að fá myntsláttu, þá eigi þetta mál að liggja niðri, og að við getum þangað til unað við útlenda mynt, að því litla leyti, sem við höfum efni á að eignast hana. —

Jeg skal þó taka fram, að þetta nær ekki til innlendrar skiftimyntar.