25.03.1922
Neðri deild: 32. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (1384)

47. mál, myntlög

Jakob Möller. Það skiftir minstu máli, hvort dagskráin eða frv. verður samþ. í nefndarálitinu eru prentuð ummæli í þá átt, að það sje vilji nefndarinnar, að myntsláttan sje gerð innlend, og í sömu átt hnigu orð háttv. frsm. (J. A. J.). Ef dagskráin er samþ., þá er það gert með þeim skilningi, að þetta beri að gera hið fyrsta.

Um það, sem hv. samþm. minn (J. Þ.) var að tala um, að myntsláttan mundi verða baggi á ríkinu, get jeg sagt það, að jeg veit hið gagnstæða, þótt jeg hafi ekki við höndina gögn til að sanna það. En hún borgar sig áreiðanlega vel, vegna þess, að nafngildi peninganna er æfinlega haft svo miklum mun hærra en raunverulegu verðmæti þeirra nemur, að vel hrekkur fyrir öllum kostnaði. Hins vegar er það ekki tilgangur flm. eða krafa, að þegar verði undið að því að slá sjerstaka íslenska gull- og silfurmynt. Það væri líka í raun og veru tilgangslítið, því að slíkir peningar yrðu varla settir í umferð að svo stöddu, heldur geymdir í kjöllurum bankanna. Og svo eru þeir málmar enn mjög dýrir, svo að í svipinn væri það sennilega ekki gróðavegur.

Og þar sem lögin verða þá að eins heimildarlög, svo sem þau og bera greinilega með sjer, sbr. t. d. 15. gr., þá gerir lítið til, hvort frv. eða dagskráin verður samþykt. Ef þingið lýsir yfir þeim vilja sínum, að að því beri að stefna, að vjer tökum myntsláttuna í vorar hendur, þá ætti málinu að vera borgið í höndum stjórnarinnar.