11.03.1922
Neðri deild: 20. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í C-deild Alþingistíðinda. (1392)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Forsætisráðherra (S. E.):

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) má gjarnan rifja upp stefnuskráratriði stjórnarinnar. Svo mergjuð voru þau, að þau sitja föst í hv. þm. (S. St.), og er það gott að vita. Jeg vil þó minna á, að jafnframt því, að stjórnin lofaði að leitast við að gera embættabákn landsins einfaldara, tók hún jafnframt fram, að hún mundi ekki vilja svifta menn embættum fyrirvaralaust og að ástæðulausu. Í fullu samræmi við þetta er aðstaða mín í þessu máli. Þótt sú yrði niðurstaðan við nánari rannsókn, að embætti mætti leggja niður, þá er þó ekki hægt að gera það endurgjaldslaust til embættismannanna, eins og hjer er farið fram á. — Þar við bætist, að hlutaðeigandi er maður á sextugsaldri, þjóðþektur, og hefir gengið mjög röggsamlega fram í sjálfstæðisbaráttu vorri. Það sýnast því vera ljeleg laun fyrir vel unnið starf, og þingi og þjóðinni síst til sóma, ef á að fara sparka honum fyrirvaralaust úr embættinu.

Jeg mun ekki ræða fjárhaginn nú, því að jeg hefi ekki þær tölur nú, sem nauðsynlegt er að byggja á í því efni. En er hv. síðasti ræðumaður (S. St.) vildi skella skuldinni út af fjárþröng landsins á fullveldið, get jeg ekki orða bundist. (S. St.: Jeg hefi aldrei gert það). Jeg gat ekki skilið ræðu hans á annan veg, en mjer þykir vænt um, að hann hefir ekki meint það, enda hjelt jeg, að öllum væri ljóst, af hverju fjárhagsvandræðin aðallega stafa. Heimsstyrjöldin á auðvitað mikla sök á þeim, hjer eins og svo víða annarsstaðar í heiminum.

Jeg kom aðeins með þessa stuttu athugasemd til að gera grein fyrir, að jeg er á móti þessu frv.; jeg er á móti því, að menn sjeu reknir úr embættum fyrirvaralaust, en hitt stend jeg fast við, að jeg mun gera mitt ítrasta til að gera embættabáknið einfaldara.