13.03.1922
Neðri deild: 21. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í C-deild Alþingistíðinda. (1395)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Sparnaðarnefndin gekk ekki að því gruflandi, að frv. þetta mundi mæta mótspyrnu. Það mátti ráða af undirtektum undir önnur sparnaðarmál hjer í þessari hv. deild.

Háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) andmælti frv. mjög, en taldi sig þó til sparnaðarmannanna, en stimplaður sparnaðarmaður vildi hann þó ekki vera. Hefir sennilega munað eftir stimpilgjaldinu og ekki haft það handbært í svipinn.

Þessi hv. þm. (Gunn. S.) var eitthvað að tala um misskilinn sparnað. Það á við þennan háttv. þm. gamla spakmælið: „Misskilur heimur mig, misskil jeg einnig hann?“ Gæti það vel verið ,motto‘ fyrir öllum þingferli manns þessa, því að flest, sem hann segir hjer í deildinni, finst honum misskilið, og hann misskilur flest, sem aðrir segja.

Það er auðvitað, að altaf verður álitamál, hvaða sparnaður sje rjettmætur, en nauðsyn brýtur lög, og hagnaður einstaklingsins verður að víkja fyrir hag heildarinnar.

Mjer dettur ekki í hug að kenna Alþingi einu um það, hve illa fjárhag landsins er komið, en hann er nú einu sinni orðinn svona, og jeg fæ ekki sjeð. hvar fje á að taka til aukinnar framleiðslu, þar sem ekkert fje er til. Það er auðvitað hægt að gaspra og gjamma um sjálfstæði og framfarir, en hvað stoðar það, ef fjárhirslan er tóm? Og hafi landssjóður ekkert til að borga með, er hann löglega afsakaður, þótt hann geti ekki stutt alt mögulegt með fjárframlögum.

Hin hæstv. nýmyndaða stjórn sagði í stefnuskrárræðu sinni, að hún vildi efla framleiðsluna, en hún gleymdi að segja frá því, hvernig hún mundi fara að því. Það blandast auðvitað engum hugur um, að atvinnuvegirnir mega ekki deyja drottni sinum, en hvað er hægt að gera til bjargar? Taka lán, veit jeg að þessi háttv. þm. segir, en hvernig mæltist 10 miljón kr. lántakan fyrir, jafnvel hjá þessum háttv. þm., og þó var því fje að miklu leyti varið óbeinlínis til stuðnings framleiðslunni, með því að hjálpa bönkunum. Nei, það er sá hagnýti sparnaður einn, sem, eins og nú stendur, getur hjálpað; með honum má auka framleiðsluna, en það rignir aldrei gulli niður í ríkissjóðinn frá hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) nje öðrum, ef enginn hreyfir hönd eða fót til þess að spara og hjálpa ríkissjóðnum með því úr fjárkreppunni, svo sem auðið er.

Háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) talaði um eitt bjargráðið til stuðnings framleiðslunni, og það var fráfærur. En getur Alþingi skipað bændum að færa frá? Þessi og önnur svipuð ummæli eru fásinna, sem fljótfærir menn og grunnhygnir geta slegið fram. Frv. um þetta lá einu sinni hjer fyrir þinginu, en var felt, því að það þótti höggva of nærri atvinnufrelsi manna. Það má segja kjósendum það heima í hjeraði, að maður sje á móti öllum óþörfum embættum, en rísa svo upp öfugur móti öllu á þingi, sem í þá átt gengur að afnema þau. En jeg fæ nú ekki betur sjeð, en að Alþingi geti með fullum heiðri afnumið þetta embætti, sjerstaklega þegar ætlast er til, að manninum sje veittur styrkur, uns hann tekur við öðru embætti. Jeg er nú orðinn svo gamall sem á grönum má sjá, enda kippi jeg mjer ekki upp við það, þó að sparnaður sje kallaður nirfilsháttur. Þegar alt er komið á heljarþröm og brýn skylda er að aðhafast eitthvað til bjargar.

Þá talaði þessi sami hv. þm. (Gunn. S.) mikið um veg háskólans. Jeg segi fyrir mig, að jeg vil ekki aukinn veg hans með því, að halda uppi óþörfum embættum við hann. Og skiftir hjer engu, hvort jeg hefi stutt að þessari embættisstofnun í fyrstu eða ekki.

Þá sagði þessi sami hv. þm. (Gunn. S.), að hann væri mikill vinur klassiskra fræða. En þess er að gæta, að önnur klassisk fræði eru ekki kend en gríska, prestsefnum einum. Hefði starf mannsins orðið samkvæmt því, sem lögin ætluðu honum, hefði málið litið nokkuð öðruvísi út, en sú hefir nú ekki orðið raunin á. Þá sagði hann (Gunn. S.), að ekki mætti afnema þau vegna útlendinga, sem háskólann sæktu. Jeg verð nú að efast um það, að útlendingar sæki nokkurn tíma háskólann hjer til þess að stunda grísku. Og aldrei munum við halda uppi veg háskólans með því að gera heimspekisdeild hans að almenningi fyrir óþörf embætti. Það eitt eykur veg háskólans, að hafa þar þau ein embætti, sem eitthvert praktiskt eða vísindalegt gagn er að, en hjer er hvorugt.

Hæstv. forsrh. (S. E.) sagði, að stjórnin væri á móti frv. Jeg skil þetta og skil ekki, því stjórnin lofaði þó að finna ráð til þess að bæta fjárhaginn, en til þess er sparnaðurinn nú aðalráðið. En mig furðaði á því, að hæstv. forsrh. (S. E.) sagði, að hann gæti ekki gert sjer glögga grein fyrir þessu máli sökum þess, að hann hefði ekki kynt sjer svo fjárhaginn enn. Jeg hjelt, að rannsóknin á fjárhagnum væri nú ekki svo erfið, jafnvel hæstv. forsrh. (S. E.), því hann hefði ekki þurft annað en hlusta á fyrv. fjrh. (M. G.) til þess að komast að raun um hann, og svo að glugga eitthvað í fjárlögin. En annars býst jeg við því, að hæstv. stjórn leggist mjög djúpt til næsta þings, til þess að bæta úr fjárhagnum. Þingið lifir í þeirri trú og von, að viturlegar ráðstafanir komi frá henni, en sumir halda þó, að mest sje undir því komið, að guð gefi gott ár og góðar vertíð; það muni hjálpa meira en öll fjármálaþekking hæstv. forsrh.

Þá sagði hæstv. forsrh. (S. E.), að þessum embættismanni, sem hjer ræðir um, væri sparkað úr embætti. Þetta er ekki rjett. Meiri hl. sparnaðarnefndar mun leggja til, að honum sje veitt einhver uppbót fyrir embættismissinn.