13.03.1922
Neðri deild: 21. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í C-deild Alþingistíðinda. (1399)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Forsætisráðherra (S. E.):

Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sagði, að nefndin hefði verið því meðmælt að veita grískudócentinum styrk í fjárl., ef embætti hans yrði lagt niður, en rjett á eftir kemur svo fram yfirlýsing frá meðnefndarmanni hans, hv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.), að hann ætlist ekki til, að honum verði veittur nokkur styrkur eða uppbót, svo þeim ber nú ekki sem best saman. Annars er það svo langt frá því, að afstaða mín í þessu máli sje í mótsögn við stefnuskrárræðu mína, því að þar var það beint tekið fram, að stjórnin vildi ekki að ósekju kasta embættismönnum landsins fyrirvaralaust út á gaddinn.

Hv. þm N.-Ísf. (S. St.) sagði, að þegar rætt var um skilnað ríkis og kirkju hjer á þingi áður, þá hafi það aðeins verið meiningin að bera það undir þjóðina, hvort hún vildi skilnaðinn. Það var nú að vísu svo, en allir þeir, sem greiddu atkv. með því að bera það undir þjóðina, munu hafa verið með skilnaðinum, og auðvitað væri hægt að framkvæma skilnað ríkis og kirkju, án þess að spyrja þjóðina.

Þá sagði hv. þm. (S. St), að það væri minn vilji að kasta prestastjettinni út á gaddinn. En það voru aldrei mín orð, en jeg sýndi aðeins fram á, að ef þingið fjellist á till. hv. þm. (S. St.) í þessu efni, þá mætti með sama rjetti beita samskonar harðræði gegn hans eigin stjett. Og þótt hann sjálfur sje svo efnum búinn, að honum gerði það ekkert til, þá eru þó aðrir til innan þeirrar stjettar, sem yrðu hart úti og mundu leggja litla blessun yfir hann fyrir tilræðið.

Þá hneykslaðist þessi hv. þm. (S. St.) á því, að jeg skyldi vilja grafa mig niður í fjárhaginn áður en jeg færi að ræða um fjármál við hann. Ef háttv. þm. (S. St.) vissi, hvað mikla fyrirhöfn þarf til þess að vera vel heima á öllum sviðum fjármálanna, þá mundi hann skilja þessi orð mín, en ekki mundi mjer koma á óvart, þó að hann reyndist víða grunnur í þeim málum, ef hann væri spurður þar spjörunum úr. Og lítið held jeg yrði um heildaryfirlitið. Jeg hefi oft áður heyrt þennan hv. þm. (S. St.) tala um fjárhaginn, og stundum af ótrúlega litlu viti. En í sleggjudómum hefir hv. þm. (S. St.) jafnan verið öruggur. Það þarf meira en að hafa sjeð landsreikn. 1920. Það þarf að gera sjer grein fyrir, hvers virði skip landssjóðs eru, hve mikill ágóði er af landsversluninni, gera upp skuldirnar, sjá hve mikið er í sjóði o. fl. Þetta hefir hv. þm. (S. St.) enga hugmynd um, og honum finst, að hann þurfi ekkert að vita um það. Svo undarlega vaða sumir í villu og svima.

Jeg vil að síðustu taka það fram, að þó að jeg vilji minka embættabáknið, tel jeg það þó ekkert aðalráð til þess að bjarga fjárhagnum í augnablikinu. Þetta er aðeins sjálfsögð framtíðarráðstöfun. En til hins þarf aðrar og öflugri ráðstafanir.