13.03.1922
Neðri deild: 21. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (1401)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Gunnar Sigurðsson:

Jeg ætla mjer að verða stuttorður, en vil þó leyfa mjer að svara hv. frsm. (S. St.) nokkrum orðum.

Eins og vænta mátti, færði hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) engar röksemdir í máli sínu, heldur svaraði hann ræðu minni aðeins með persónulegum hnútum, án þess þó að jeg hefði gefið honum nokkra ástæðu til þess. Jeg hlífði honum þá, þótt jeg hefði ærna ástæðu til annars, eins og hv. deild þekkir.

Hann sagði, að jeg hefði „stimplað“ mig sem ósparnaðarmann. Það mun öllum hv. þm. kunnugt, að jeg er albúinn að fylgja hv. sparnaðarnefnd til alls þess, sem jeg tel raunverulegan sparnað í. Því til sönnunar skal jeg benda á afstöðu mína til frv. um að fella niður prentun á ræðuparti Alþt. Sömuleiðis var jeg samþykkur því, að fækka hæstarjettardómurunum, en hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) mun nú vera fallinn frá því. Hann er altaf fljótur að skifta um skoðun.

Hann sagði, að jeg væri oft misskilinn. Jeg vísa því aðeins til hv. deildar, hvort henni virðist mál mitt sjerlega torskilið, en hinu trúi jeg vel, að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) misskilji mig oft, því hans skilningur virðist vera mjög takmarkaður, og vil jeg benda mönnum á síðustu ræðu hans. Hann segir: „Við getum ekki stutt framleiðsluna; hún verður að deyja drotni sínum.“ Þessi orð er ómögulegt að taka alvarlega, og jeg sje ekki, hvað þingið hefir að gera við þá menn, sem láta sjer slíkt um munn fara.

Hv. þm. (S. St.) sagði, að jeg hefði verið langorður um fráfærur. Jeg skírskota því til hv. deildar, hvað jeg sagði um þær. Aðeins það, að bændum væri nauðsynlegt að færa frá, til þess að geta búið að sínu sem mest, en jeg mintist aldrei á að láta lögbjóða fráfærur. Út af þessu verður hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) langorður og misskildi orð mín, eins og vænta mátti af honum, og bygði upp heilt fráfærnakerfi, sem jeg hefði átt að vilja láta lögbjóða.

Hann talaði og um að grafa sig niður í fjárhaginn. Honum mun nú harla torsótt að grafa sig niður í fjárhaginn af nokkrum skilningi; hitt mundi sanni nær, að hann gerði það af sínu alþekta, meðfædda moldvörpueðli. Í sambandi við þetta fjárhagsraus sitt mintist hann á fjárhag minn. Um hann er það að segja, að jeg skammast mín ekkert fyrir hann. Jeg skammast mín ekki fyrir það, þó að fjárkreppa sú, sem nú gengur yfir, hafi einnig náð til mín, og jeg mun aldrei, vegna fjármuna, gera mig að asna eða nirfli. Jeg gat þessa áðan, en jeg sagði aldrei, að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) væri nirfill, en samt sem áður tók hann það til sín. Það er þunt móðureyrað.

Hv. þm. (S. St.) gat þess í ræðu sinni, að hv. þm. Dala. (B. J.) kendi aðeins grísku í háskólanum. Þetta er allsendis rangt, því að hann kennir einnig latínu þeim, er stunda sögu og norrænu, og það er einmitt þetta, sem jeg taldi höfuðatriði í síðustu ræðu minni.

Annað var og í ræðu hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), sem jeg tek aðeins sem karlagrobb, sem sje það, að hann þóttist vera betri í latínu en jeg. Þetta er sjálfsagt rjett, en það leiðir af öðru skólafyrirkomulagi, sem hann bjó við í skóla. Ef hins vegar á að fara í mannjöfnuð, þykist jeg vera betur að mjer í nýju málunum en hann. Jeg mundi t. d. þora að bjóða honum út í ensku. Annars sje jeg ekki, hvað málakunnátta okkar kemur málinu við.

Jeg skal taka það fram, að það er ekki meining mín, að menn læri latínu nema í sambandi við annað, en jeg legg aðaláhersluna á það, að einn sjerfróður maður í þessum greinum sje í landinu.

Jeg ætlaði á engan hátt að særa hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) með ræðu minni, en þar sem hann varð fyrri til að bekkjast til við mig, tel jeg óvandari eftirleikinn, og skal þá geta þess að síðustu, að 1914, þegar frv. um stofnun þessa embættis, kom hjer fyrir Alþingi, flutti þessi hv. þm. (S. St.) það. Er hann hafði gylt það fyrir hv. þm. og talið alla hugsanlega kosti þess, greiddi hann atkv. móti því. Jeg vona, að hann verði nú samkvæmur sjálfum sjer og greiði einnig atkv. á móti þessu frv.

Að svo mæltu skora jeg á hv. deild að fella þetta frv.