21.03.1922
Neðri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í C-deild Alþingistíðinda. (1414)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Forsætisráðherra (S. E.):

Jeg hefi hugsað mjer að verða ekki langorður nú. Skoðun minni á málinu hefi jeg áður lýst og geri ráð fyrir að taka til máls, þegar háskólaráðið hefir látið í ljós álit sitt á málinu.

Jeg vil leyfa mjer að þakka þeim hv. þm. Mýra. (P. Þ.) og hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) fyrir það, að þeir líta á þetta mál eins og jeg, að ekki sje hægt að kasta embættismönnum þjóðarinnar á gaddinn fyrirvaralaust.

Jeg er algerlega sammála hv. frsm. (S. St.) um það, að umr. um þetta mál sjeu orðnar helst til of langar.

Jeg get ekki sjeð, að mikil trygging sje í loforðum hv. frsm. (S. St.) sem verða fastari eftir því, sem málinu vindur fram, um að embættismanni þessum sjeu trygð eftirlaun, því þótt nefndin lofi því, ræður hún að eins sínum eigin atkv., en engan veginn því, hvernig hið háa Alþingi muni taka í það mál.

Ef nefndinni væri alvara, hefði hún vitanlega átt að sjá svo um, að frv. gengi ekki í gegnum þingið, fyr en þessi biðlaun væru fast ákveðin í fjárlögunum.