21.03.1922
Neðri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í C-deild Alþingistíðinda. (1415)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Magnús Jónsson:

Það er ekki til neins fyrir hv. þm. að ætla að skamta umræðutíma. Það verður að eins til þess að lengja umr., því ef margir standa upp til að láta það í ljós, dregur það sig saman í heila ræðu.

Jeg hafði hugsað mjer að taka ekki til máls, þótt undarlegt megi virðast, þar sem þetta mál er mjer skyldast, og jeg kunnugastur þm. um gagnsemi þessarar kenslu.

Jeg hefi áður lýst því yfir, að jeg muni aldrei greiða atkv. með þessu frv. óbreyttu, og jafnvel þótt jeg hefði barist með hnúum og hnefum móti stofnun þessa embættis, mundi eg engu að síður vera móti frv. og skoða það metnaðarmál, að ríkið bregðist ekki svo sínum starfsmönnum, sem þar er farið fram á.

Þann þurfamannastyrk, sem háttv. nefnd vill úthluta þessum embættismönnum, tel jeg að eins muni gera ilt verra, því í fyrsta lagi er alveg óvíst, að slíkur styrkur yrði samþyktur á þessu þingi, og í öðru lagi er enn þá óvissara, að hann yrði samþyktur á næstu þingum. Þá gæti risið önnur sparnaðaralda og skolað honum út af fjárlögunum, því sjaldan er ein báran stök, og ekki þessi fremur en aðrar.

Ef nefndin hefði viljað skiljast heiðarlega við þetta mál, hefði hún átt á þessu þingi að ákveða þessi eftirlaun fyrir fult og alt í frumvarpinu. En jeg er á móti frv. yfirleitt, og sama er að segja um brtt. á þskj. 95. Jeg er á móti hvorutveggja, af því að jeg álít þessa kenslu nauðsynlega, annaðhvort á þann hátt, sem nú er, eða einhvern annan. Það er að vísu mögulegt að læra guðfræði án þess að kunna grísku, en það má einnig kenna hana flestum mönnum meðalgreindum, sem hafa aðeins hlotið venjulega barnafræðslu. Þetta er ekki óalgengt í Vesturheimi, og þeir geta jafnvel orðið sæmilegir prestar. En þessari guðfræðikenslu er náttúrlega mjög ábótavant og mundi lækka prestastjettina, ef hún væri tekin upp alment.

Hjer á landi mundu menn nú hafa stúdentspróf sitt, og vantar þá eigi jafnmikið, en jeg tel það mikinn baga, að geta ekki lesið Nýjatestamentið nema í þýðingum. Það er ekki gott að útskýra, en hv. þm. mega taka það trúanlegt, að í Nýjatestamentinu eru mýmargir staðir, sem ekki er hægt að skýra til fullnustu nema með grískukunnáttu.

Við eigum að vísu ágæta þýðingu á Nýjatestamentinu, en þýðingar eru venjulega þannig, að þær verða að skera úr deilumálunum, og er ómögulegt að sýna dýpstu merkingu ýmsra staða nema á frummálinu.

Það hefir að vísu verið kend guðfræði án grískukunnáttu nemenda, og var hægt að komast svo af, en hún er engu að síður mikils virði, og jeg get borið um, að það er ólíkt betra að kenna þeim guðfræði, sem grísku kunna.

Þetta mál er enn fremur fyrir mjer nokkurt metnaðarmál, en það orð má nú kannske ekki heyrast í hv. deild. Eins og menn vita, er kandidötum veittur styrkur úr sáttmálasjóði til utanfarar. Hafa farið 1–2 kandidatar á ári og til þess valist efnilegustu menn. Mjer þykir leiðinlegt, ef þeir eru sendir utan án þess að þekkja slíkt undirstöðuatriði sem grískan er talin, og skilja ekki staf í bókum skólabræðra sinna þar.

Á flestum háskólum er guðfræðingum einnig kend hebreska; hjer er nú ekki um það að ræða, þó það sje mikill skortur; hefir það og verið talinn kostur á kandidötum frá Kaupmannahafnarháskóla, að þeir hafa lesið hebresku; en hinu mundu fæstir trúa, að guðfræðingar kynnu ekki gríska stafrófið.

Guðfræðideildin vildi nú tryggja það, að stúdentar hefðu þekkingu á grísku, og heimtaði vottorð hvers nemanda um að þeir hefðu numið hana nokkuð, áður en þeir fengi að ganga undir embættispróf. Þessu mun deildin halda áfram, en hún leggur ekki áherslu á, að þeir læri hana við háskóla Íslands fremur en einhversstaðar annarsstaðar. En ef þm. Dala. (B. J.) verður skyldaður til þess að hætta kenslunni við háskólann, þarf varla að búast við því, að hann taki að sjer þessa kenslu annarsstaðar. Það þyrfti því að fá til þess annan mann, og mundi hans kaup og biðlaun Bjarna Jónssonar draga sig saman, þannig, að sáralítið eða ekkert yrði sparað með öllu þessu.

Það hefir verið sagt hjer í deildinni, að þessi kensla væri ekki fullnægjandi. Það er alls ekki rjett. Jeg hefi verið prófdómari við grískuprófin, og get því vel borið um það. Þekking nemenda er furðanlega mikil, og þó að henni hafi verið jafnað við þekkingu manna í 2. og 3. bekk latínuskólans gamla, er það rangt; hún er miklu meiri. Jeg segi þetta alls ekki til þess að skjalla hv. embættismanninn, sem kennir hana. Þetta er og skiljanlegt, þegar þess er gætt, að stúdentarnir eru þroskaðri og betur að sjer en skólapiltar voru, og það eru menn sem vilja læra. Það er því rangt að segja, að kenslan sje ófullnægjandi eða reyna að rýra hana í augum þm. Hún er fullnægjandi til þess að lesa Nýjatestamentið.

Jeg ætla að greiða atkvæði með brtt. á þskj. 95, til að reyna að afstýra því hneyksli, að frv. verði samþykt óbreytt, en jeg mundi helst kjósa, að hvorttveggja væri felt.