21.03.1922
Neðri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í C-deild Alþingistíðinda. (1419)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Forsætisráðherra (S. E.):

Það er vitanlega misjafnt, hvað menn eiga hægt með að ná sjer í atvinnu, hafi þeir mist þá, er þeir höfðu. T. d. gæti jeg trúað því, að ekki mundi auðhlaupið að því fyrir mann á sextugs aldri, sem verið hefir kennari mikinn hluta æfinnar, og aðeins æft sig í því eina starfi, að útvega sjer nýja stöðu, þegar búið væri að svifta hann embættinu. En við þetta er ekkert að athuga, sjái ríkið manninum farborða að öðru leyti.

Jeg skal nefna eitt dæmi, sem mun flestum í fersku minni og þjóðin hefir óbeinlínis lýst vanþóknun sinni á: Maður var settur landsbankastjóri og gegndi því starfi á 3. ár. Að þeim tíma liðnum var öðrum manni veitt bankastjórastarfið, og hinum, sem settur hafði verið svona lengi, sagt að fara, með aðeins mánaðar fyrirvara og án þess, að honum væri fengið annað starf. Þetta hefir mælst afarilla fyrir, eins og von er. Almenningsálitið er ekki með því, að svo sje breytt við starfsmenn ríkisins.

Þeir, sem vaða í peningum upp fyrir axlir, skilja ekki, hvað ráðstöfun eins og sú, sem jeg nefndi áðan, kemur hart niður á þeim, sem fyrir henni verða.

Það getur verið, að hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) geti gróðursett sína hörðu þanka hjá þjóðinni, en jeg fyrir mitt leyti vona, að slíkur gróður nái aldrei miklum þroska.