27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

1. mál, fjárlög 1923

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg vil hefja hjer mál mitt með því að minna háttv. þm. á, að þótt ýmsir hafi andmælt því, sem jeg sagði um fjárhag landsins við 2. umr. þessa máls, þá hefir slíkt ekki verið gert með neinum rökum. Hafa í því efni allir skynsömustu þingmenn stutt mitt mál, og vil jeg þar til nefna meðal annara fyrverandi fjármálaráðherra. hv. 1. þm. Skagf. (M.G.).

Jeg vil geta þessa þegar í upphafi, vegna þess, að jeg vil að það sjáist skýrt, að orð frsm. fjvn. og ýmsra vitrustu og gætnustu manna þingsins standi gegn ummælum þeirra þm., sem ekki þreytast á að stagast á því, að allur fjárhagur vor sje í kaldakoli, og reyna þannig að veikja traust landsins út á við.

Að svo mæltu vil jeg snúa mjer að brtt. þeim, sem fram hafa komið.

Fjvn. þótti undarlega við bregða, er hún fjekk í hendur skjal nú fyrir 3. umr. með ekki færri brtt. en hún hafði sjálf komið fram með til 2. umr. Nefndin hefir þá og snúist gegn flestum þessum brtt.

Sparnaðartill. eru nær allar markleysa ein, en hinar till. hafa allflestar verið áður ræddar í fjvn., en ekki fengið þar framgang.

Þá skal jeg víkja að I. brtt. Sá liður er nokkuð annars eðlis en hinar brtt. Þó ræður nefndin fremur frá, að hann sje samþyktur nú, vegna þess að nú er hjer á leiðinni frv. um framlenging útflutningsgjalds, og er ekki enn vitað, hvernig því máli reiðir af í þinginu. Þó liggur ekki í þessari till. fjvn. nein yfirlýsing um það, hvernig hún yfirleitt taki í það mál, en henni þykir rjettara að vita fyrst forlög frv.

Brtt. II á þskj. 153 er frá háttv. þm. Ísaf. (J.A.J.) og ræðir um styrk til sjúkrahúsbyggingar á Ísafirði.

Það mál hefir fjvn. haft til meðferðar, en þótt hún sje yfirleitt fylgjandi sjúkrahúsagerð í landinu, sá hún þó ekki fært að leggja nú út í jafnstórt fyrirtæki sem þetta er. Nefndin leggur því á móti þessari brtt. með öllum atkvæðum.

Brtt. III er frá meiri hl. sparnaðarnefndar, um það, að fella niður utanfararstyrk hjeraðslækna.

Þetta mun vera eitt af þeim ágætu ráðum, sem þessir spekingar þykjast hafa fundið til bjargráða landinu. En eitt er víst, að slíkt mun ekki verða til bjargráða mannslífum. Læknar eru sú stjett manna, sem vinnur að því að bæta heilsu landsmanna. En til þess að geta slíkt svo viðunandi sje, þurfa þeir að fara utan við og við, til þess að kynnast nýjum uppfundningum og aðferðum í þessari vísindagrein. Utanför eins læknis getur því orðið til þess að bjarga mörgum mannslífum. Það er því allólíklega af stað ráðist, að spara einmitt þennan styrk. Jeg hygg einmitt að hann sje einn allranauðsynlegasti liður í fjárlögunum, að þeim liðum undanskildum. sem lögákveðnir eru. En hins vegar er það ekki nema von úr þessari átt, að ráðist sje fyrst á það, sem síst má missast.

Þá kem jeg að brtt. IV frá tveim háttv. þm. úr Múlasýslu. Fara þeir fram á tvö þúsund króna styrk til Fellahrepps, til þess að geyma geðveiks sjúklings. Nefndin hefir ekki getað mælt fram með þessari till., þótt hún hinsvegar áfellist ekki brjóstgæði þessara háttv. þm. En af því að svo margir menn eru til vitlausir í þessu landi, þá telur nefndin það hættulega braut að veita slíkum mönnum sjerstaka styrki til uppfæðslu á heimilum sínum. Hitt er annað mál að heimili slíkra manna, Kleppur, verði stækkað, svo að það rúmi alla þá, sem þangað leita. Mun þegar hafa verið tekið lán til þessa, og mun því þessum háttv. þm. rjettara að snúa sjer til hæstv. stjórnar með þessi vandræði sín, en ekki til Alþingis með sjerstakar styrkbeiðnir. Allir háttv. þm. í fjvn. munu og hafa í kjördæmum sínum einn eða fleiri menn, sem líkt stendur á um og þennan skjólstæðing háttv. flm. brtt.

Þá kemur enn brtt. frá minni hl. sparnaðarnefndar, um að fella niður fjárveitingu til fjallvega. Þetta þykir fjvn. nokkuð langt gengið, ekki síst af þeim háttv. þm., sem þó greiddu atkv. gegn því að fella niður sveitavegina. Er það nokkuð hart og ómaklegt að ráðast á fjallvegina, því bæði er upphæðin lítil, 10 þús. kr., og bætur á þeim geta áreiðanlega bjargað mannslífum. Um þennan lið hefir þó nefndin látið óbundin atkvæði.

VI. brtt. er frá háttv. þm. Ísaf. (J.A.J.), um að lækka fjárveitinguna til strandferða úr 200 þús. niður í 100 þús. kr. Meiri hl. fjvn. hefir tjáð sig mótfallinn þessari till. En jeg er henni eindregið fylgjandi og hafði sjálfur hugsað mjer að koma fram með slíka brtt. Hygg jeg það ólíku betra að spara tíu sinnum meira á óþörfum strandferðum en að fella fjallvegina.

VII. brtt. er frá fjvn. Stafar hún af gleymsku nefndarinnar, og því ekki verið orðuð rjett till. hennar um að fella símana fyr en þessi liður væri einnig feldur. Býst jeg ekki við mótmælum gegn þessari till.

VIII. brtt. er nefndin og mótfallin. Það mál hefir áður verið rætt í nefndinni, en fjekk þar ekki byr.

IX. brtt., frá háttv. 4. þm. Reykv. (M.J.), er um skrifstofukostnað biskups. Um þá till. hefir nefndin óbundin atkvæði. Jeg sje ekkert rjettlæti í því að gera mun á skrifstofufje landlæknis og biskups, en báðir hafa jafnt, ef þessi brtt. er samþykt.

Þá kem jeg að hinni miklu búkonu þingsins, sparnaðarnefndinni. Ræðst hún einkum á skólana og leitast við að naga af þeim ýmsar upphæðir, sem þó engu munar. Vill hún fyrst og fremst breyta athugasemd í fjárlögunum í þá átt, að hjeðan í frá fái enginn námsmaður, sem búsettur er í Reykjavík, styrk til náms eða húsaleigu. Það hefir nú verið svo, að efnilegir sveitapiltar hafa verið látnir sitja fyrir þessum styrk, að öðru jöfnu, og er það rjett. En ef aðstaða kaupstaðarbúans er ekki betri, nema verri sje, þá sýnist ekki ástæða til þess að útiloka hann frá öllum styrk. Eða hvaða rjettlæti er það, ef piltur úr sveit kæmi í skóla og nyti þar styrks, en næsta vetur væru foreldrar hans dáin og hann fluttur hingað foreldralaus, — hvaða rjettlæti væri það, segi jeg, ef Alþingi svifti þennan mann styrknum fyrir þá sök eina, að hann hafði mist foreldra sína og neyðst til að flytjast hingað til bæjarins? Það er annars undarlegt, að nokkrir menn skuli geta borið fram aðrar eins till. og þessar.

Yfirleitt er fjvn. eindregið á móti till. sparnaðarnefndar í skólamálum. Hún er öll á móti 1. lið; 2. liðurinn á einn fylgismann í nefndinni, en hinum liðunum er nefndin óskift á móti.

Um 5. lið í till. þessarar miklu búkonu er svipað að segja og um hina fyrri liðina. Hún miðar þar alt við Reykjavík. Skólagjald á að setja á reykvíska mentaskólanemendur, og það á alla undantekningarlaust. Það má nú vel vera, að Reykvíkingar eigi hægra með að kosta börn sín til náms hjer í mentaskólanum en aðrir menn. En það eru sumir Reykvíkingar, en ekki allir, og í því liggur ranglætið. Ef ríkur bóndi í sveit sendir son sinn í skóla, þarf hann ekkert skólagjald að greiða, en bláátækur piltur í Reykjavík, sem berst áfram með handafla sínum, þarf að greiða 100 kr. í skólagjald af engum efnum. Sannleikurinn er, að í þessum efnum er ekki hægt að rígbinda. Kennararnir verða sjálfir að ráða þessu; þeir þekkja og efnahag og gáfur námsmanna sinna best. Ef skólagjöld ættu hjer að vera á annað borð, þá eiga þau að vera almenn. En það á að vera vegur fyrir kennarana að undanskilja þá nemendur, sem sjerstaklega fátækir eru, jafnt hvort þeir eru úr sveit eða kaupstað.

Þessi sama háttv. búkona vill og fella niður alla iðnskóla af fjárlögum, svo að það sje útilokað að þeir, sem iðnað stunda, geti nokkurs undirbúnings notið. Nú er það sannreynd, að þessir skólar eru allra skóla þarfastir. Þeir menn, sem þessa skóla sækja, eru flestir byrjaðir á einhverju lífsstarfi, og nota sjer því kensluna margfalt betur en nemendur í öðrum skólum. Varð jeg þessa greinilega var, er jeg í þrjá vetur kendi stærðfræði í sjómannaskólanum. Þar voru duglegastir nemendur, sem jeg hefi þekt. Það hlýtur því að kallast hið versta verk að fella þessa skóla.

Þá kem jeg að 7. lið þessarar ágætu brtt. sparnaðarnefndar, en hann er um að klípa styrk af verslunarskólunum, 500 kr. af hvorum, samtals 1000 krónur. En úr því að till. fjárveitinganefndar um að fella þá báða af fjárlögunum gekk ekki fram, þá sýnist nefndinni óþarft og hlægilegt að vera að krukka í þá á svona lúsarlegan hátt. Styrkurinn til þeirra hefir þegar verið lækkaður eftir verðstuðulsfalli, og var það rjett. Nefndin er því öll á móti þessum lið, enda er þetta jafnþýðingarlaust eins og að reita rjúpu.

Enn er till. um að fella niður styrk til kvenna, 40 kr. á hverja námsmey, en jafnframt leggja þessir ágætu menn til, að styrkurinn til sveitastúlkna sje stórum hækkaður. Það er synd að segja, að skortur sje á samræmi í till. háttv. búkonu þings og þjóðar!

Fjvn. hefir rætt um þessa skóla á fundum sínum. Þótti henni ekki fult samræmi í styrknum til skólanna. Gat jeg þess við 2. umr., að nefndinni hefði þótt rjettara að jafna þennan mun á þann hátt að hækka styrkinn til Blönduósskólans. en lækka ekki styrkinn til Reykjavíkurskólans. Fjvn. er því öll samhljóða á móti þessari till. sparnaðarnefndar.

Þá er háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.) á ferðinni um Húnavatnssýslu og vegur þar allrösklega að kvenfólkinu. Vill hann lækka styrkinn til Blönduósskólans um 1600 kr. Líklega á þessi lækkun að vera nokkurskonar iðgjöld, sem stúlkurnar þar eiga að greiða fyrir að fá að sjá hans fríða andlit. Fjvn. er á móti þessari till. með 6:1 atkv. Þykist hún kunna göfuglyndi þess ágæta þm. svo, að hann muni fús að sýna sig þar nyrðra án þess að nokkuð komi á móti.

XII. brtt. er enn frá búkonunni. Vill hún þar lækka námsstyrkinn til kvennaskólans á Blönduósi. Jeg veit ekki hver er meining búkonunnar með þessari till., en úr því hún leggur til að lækka styrkinn til sveitastúlkna á Blönduósi, en hækka styrk sveitastúlkna við kvennaskólann í Reykjavík, þá sýnist svo, sem hún sje hjer að gera tilraun til að sveitastúlkur leiti fremur hingað til náms, en fælist Blönduósskólann.

Næst koma tvær brtt. frá fjárveitinganefnd. Háttv. deild þótti fjvn. of stórstíg er hún hækkaði fjárveitingu til unglingaskóla upp í 50 þús. kr. Þó ætlaðist nefndin ekki til, að stjórnin væri skyldug til að greiða þetta fje, heldur átti það að vera hvöt til þjóðarinnar um að auka unglingafræðsluna þar sem nýir skólar áttu þá vísa von um styrk, ef þeir kæmust á fót. Það er og síst vanþörf á slíkum skólum, og Íslendingar hafa litla ástæðu til að springa af monti, þótt þeir hafi varið hálfri miljón kr. til þess að börn þeirra lærðu nokkurnveginn að skrifa og reikna. Nefndin vonar nú að fá samþykta þessa nýju brtt. sína um 10 þúsund króna hækkun til þessara skóla. Getur það og síst talist of mikið að ætla slíkum skólum 35 þúsund kr., þegar einum samskonar skóla eru ætlaðar 15 þús. kr., en það er Flensborgarskólinn. Eftir því sem jeg nú kann hug háttv. deildar, þá vill hún ekki breyta fræðslukerfi landsins. En þá verður hún líka að prjóna eitthvað ofan við barnafræðsluna, því fáfræðin í landinu er óþolandi.

Hin till. fjvn. er um skólann í Bergstaðastræti 3. Býst jeg við, að styrkurinn til hans hafi af gleymsku fallið af fjárlögunum. (M. G.: Nei). Jeg hafði heyrt þetta eftir skilríkum mönnum, og þykir leitt, ef það er ekki satt, því aðra ástæðu gat jeg ekki fundið, er rjettlætti þetta verk fyrv. stjórnar. Hefir nefndin lagt til, að þessi skóli fái 800 kr. í stað 1 þús., sem hann hefir áður haft. Er sú lækkun í samræmi við verðstuðulsfall. Annars eru till. fjvn. til þessarar umr. hverfandi í samanburði við till. annara. Er þar búkonan mikla langdrýgst, enda vill hún helst telja sjer slík verk.

Þá verð jeg að víkja að brtt. á þskj. 157. Er þar fyrst brtt. frá háttv. 3. þm. Reykv. (J.Þ.). Flestir nefndarmenn eru á móti þeirri till.; hefði nefndin talið æskilegra, að hún væri meira sundurliðuð.

Brtt. II er frá 1. þm. Eyf. (St.St.). Sá þm. er í sparnaðarnefnd. Hann er þar að reyna að ná í 1 þús. kr. til bátaferða til Grímseyjar. Hefir hann áður hjer í deildinni haldið langa ræðu um þetta efni. Skal jeg ekki getum að því leiða, hvað hún hefir kostað landið, því nú er þingtími dýr, en hitt veit jeg, að bæði þessi ræða hans og brtt. er ekki sparnaður, heldur ósparnaður, og það óþarfur ósparnaður. Hæstv. atvrh. (Kl.J.) lýsti því ótvírætt yfir, að Grímseyingar mundu fá þennan styrk hvort sem væri. Alt þetta hjal háttv. 1. þm. Eyf. er því ósparnaður, og einnig þær ræður, sem hann kann að halda hjer í háttv. deild um þetta mál.

Um till. háttv. atvrh. (Kl.J.) get jeg ekkert sagt fyrir nefndarinnar hönd. En sum verk nefndarinnar benda til þess, að hún muni ekki vera brtt. mótfallin, a. m. k. ekki að því, er snertir einn símann. Vil jeg með leyfi hæstv. forseta lesa upp brot úr fundargerð fjvn., sem að þessu lýtur:

„Nefndin samþykkir með samhljóða atkvæðum að mæla með því, að síminn frá Búðardal til Króksfjarðarness verði látinn ganga fyrir, og að hann verði lagður fyrir það fje, er nú stendur í fjárlögum“.

Að því er snertir þennan síma, er því nefndin samþykk brtt. hæstv. atvrh. (Kl.J.). en annars get jeg ekki sagt um hug nefndarinnar.

Enn er hjer brtt. um námsstyrk stúdenta erlendis, frá háttv. 3. þm. Reykv. (J.Þ.). Enda þótt hver stúdent hafi 1200 kr. styrk, þykir nefndinni óþarfi að áætla upphæðina 30 þús. kr., eins og brtt. fer fram á. Þykir henni því rjettara að láta stjórnarupphæðina standa, enda er þetta aðeins áætlunarupphæð, en getur aldrei verið fastákveðin.

Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um þennan kafla fjárlaganna að sinni, því jeg býst við, að háttv. flm. breytingartillagnanna sjeu orðnir óþolinmóðir og vilji nú gjarna komast að til þess að mæla fram með sínum till.