30.03.1922
Neðri deild: 36. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í C-deild Alþingistíðinda. (1427)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Forsætisráðherra (S. E.):

Eins og hv. þm. er kunnugt, þá hefir þetta mál verið lagt fyrir háskólaráðið, og áður en það ljet uppi álit sitt, var málið athugað, bæði í heimspekideild og guðfræðideild.

Heimspekideildin vísar til guðfræðideildar, að því er grískuna snertir, en sjálf lætur heimspekideildin uppi álit sitt um latínukensluna á þessa leið, ef jeg má lesa það upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Um frv. til laga um afnám kennarastóls í klassiskum fræðum við háskóla Íslands (þskj. 57) var samþ. svohljóðandi álit:

„Um kenslu í grísku vísar heimspekideild til guðfræðideildar. En um kenslu í latínu telur deildin mjög æskilegt, eins og tíðkað er við aðra norræna háskóla, að nemendur þeir, sem leggja stund á íslensk fræði, fái tilsögn í lestri latínurita Íslendinga og annara Norðurlandaþjóða frá miðöldum og síðar. Enda hafa nemendur þegar fært sjer þessa kenslu í nyt.“

Þetta segir heimspekideild, og er það hið sama, sem hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) færði fram til stuðnings þessu máli, þegar embættið var stofnað.

Guðfræðideildin telur algerlega óviðunandi, að nemendur hennar geti ekki fengið tilsögn í grískri tungu. Á þetta hefir háskólaráðið fallist fyllilega og lýsir því einróma yfir í áliti sínu, að þetta embætti sje nauðsynlegt.

Þá kemur fram mjög ákveðin brtt. frá hv. sparnaðarnefnd, um 2500 kr. eftirlaun handa þessum manni.

Þetta álít jeg varhugaverða braut. Því hjer er komið fram með sterka eftirlaunafyrirmynd, sem getur haft slæmar afleiðingar síðar. En auðvitað er með þessu fyrir það girt, að manninum sje eins kastað á gaddinn.

Það er grunur minn, að þó þetta embætti verði nú lagt niður, sem jeg teldi mjög misráðið, að þá muni sú krafa koma fast fram frá háskólanum, að kensla í latínu og grísku haldi þar áfram. Og það verður erfitt fyrir þing og þjóð að standa lengi gegn þeim kröfum, þegar tvær deildir og háskólaráðið telja hjer vera um grundvallaratriði að ræða. Og þá væri áreiðanlega ver farið en heima setið, ef sá maður, sem hjer er um að ræða, væri settur á há eftirlaun, en svo á eftir fengnir nýir menn til að kenna við háskólann grísku og latínu, eða hann sjálfur fenginn aftur til þess fyrir sjerstaka borgun.