27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

1. mál, fjárlög 1923

Forsætisráðherra (S. E.):

Jeg sje ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þær brtt., sem fram hafa komið við þennan kafla og heyra undir mig, því jeg er yfirleitt sammála háttv. fjvn.

Þó vildi jeg minnast á 2. brtt. á þskj. 153, um byggingu sjúkrahúss á Ísafirði. Jeg tel ekki hyggilegt á þessum erfiðu tímum að leggja út í svo mikinn tilkostnað, sem af því mundi leiða. Er jeg því þessari brtt. mótfallinn.

Þá er næsta brtt. frá meiri hl. sparnaðarnefndar, um það, að leggja niður utanfararstyrk hjeraðslækna. Um þetta mál er jeg fyllilega sammála háttv. meiri hluta fjvn.; jeg tel nauðsynlegt að halda þessum styrk áfram. Það er alkunna, að kyrstaða er öllum hættuleg, en ekki síst þeim, sem eiga að fara með heilbrigðismál þjóðarinnar, því framfarir læknisvísindanna eru hraðstígari en í flestum öðrum greinum. Jeg lít þannig á, að hin íslenska þjóð eigi heimtingu á því, að læknum hennar sje gefinn kostur á að fara utan og kynnast þessum framförum. Undanfarandi hefir fengist reynsla fyrir því, að læknar nota vel þennan styrk og hverfa heim aftur færari í sinni grein. Það er og skiljanlegt, að þeir geti lært allmikið, þó að tíminn sje ekki langur, þar sem þeir hafa áður fengið undirbúningsmentun undir starfa sinn og auk þess talsverða reynslu.

9. brtt. er frá háttv. 4. þm. Reykv. (M.J.) um það, að hækka skrifstofukostnað biskups úr 1000 í 2000 kr. Jeg tók það fram við 2. umr., að mjer þætti rjett, að biskup hefði jafnan skrifstofukostnað landlækni, því eftir þeim áreiðanlegustu upplýsingum, sem jeg hefi getað fengið, er jeg þeirrar skoðunar, að skrifstofustörf þessara tveggja embættismanna sjeu mjög ámóta. Vona jeg því, að þessi brtt. verði samþykt, þar sem hún jafnar þann mismun, sem áður hefir verið á þessum skrifstofukostnaði.

Þá vildi jeg leyfa mjer að fara nokkrum orðum um 10. brtt. á þskj. 153, frá meiri hl. sparnaðarnefndar.

Mjer skilst, að hjer sje farið fram á að veita aðeins utanbæjarnemendum í mentaskólanum námsstyrk, en útiloka bæjarnemendur frá honum. Jeg skal játa, að alment eiga utanbæjarnemendur meiri kröfur til þessa styrks, eins og tekið er fram í greinargerðinni fyrir honum í fjárlögunum, enda mælir og öll sanngirni með því. En nú geta ýmsir af utanbæjarsveinum ekki þurft þessa styrks við og aðrir bæjarnemendur, sem eru í brýnni þörf fyrir hann. Virðist mjer því eigi rjett að útiloka bæjarnemendur með öllu frá þessum styrk.

Einkum tel jeg þó rangt það, sem síðari hluti þessarar brtt. fer fram á, og það er, að bæjarnemendur greiði skólagjald. Þetta gæti að minni hyggju jafnvel haft þær afleiðingar, að efnilegustu menn sæju sjer ekki fært að sækja skólann. Það er að vísu rjett, að skólavistin er dýrari og erfiðari fyrir utanbæjarnemendur, en þeim hefir og venjulega verið veitt talsvert meira af námsstyrknum. Jeg lít þannig á þetta mál, að yfirleitt sje rangt að setja nokkur skilyrði í þessa átt.

Þá er 13. brtt. á þskj. 153, frá fjárveitinganefnd, um það að hækka tillagið til unglingaskóla og alþýðuskóla. Jeg ætla mjer síst að mótmæla þessu, en vildi aðeins geta þess í sambandi við röksemdir háttv. þm. Dala. (B.J.) fyrir því, að alþýða á Íslandi sje orðin sjerlega fáfróð, að jeg er sannfærður um, að alþýðumentun er miklu betri nú en á þeim tímum, sem háttv. þm. sjer í hillingaljóma, og mætti færa að því mörg rök.

Þá er ekki fleira, sem jeg hefi ástæðu til að geta um, en vil að síðustu taka það fram, að jeg er yfirleitt sammála háttv. fjvn.