30.03.1922
Neðri deild: 36. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í C-deild Alþingistíðinda. (1432)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Eins og menn sjá, þá gengur dagskrá þessi út á það að draga þetta mál, þar til till. stjórnarinnar um fækkun embættismanna eru komnar fram. Jeg hefi áður sagt, að jeg hlakka mjög til þess að fá að heyra þessar till. hennar. En hvernig sem þær annars verða, þá held jeg, að samkvæmt undirtektum hennar sje ekki hægt að gera sjer neina von um, að þetta embætti verði með í tölu þeirra, sem hún telur sjer fært að leggja niður. Hefi jeg orð sjálfs hæstv. forsrh. (S. E.) þessu til sönnunar. Jeg hefi heldur ekki breytt skoðun minni á því, að best sje að gera straks út um þetta, enda sje jeg ekki, að neinn dráttur hafi hjer að þýða.

Jeg skal annars staðfesta það, sem hv. þm. Barð. (H. K.) sagði, að það sje ekki meiningin með þessu frv. að bekkjast til við manninn, sem starfinu gegnir nú, og er það algerlega rangt til getið af þeim hv. þm., sem það halda.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) þarf jeg fáu að svara. Hann setti þetta í samband við ósk mína um það, að gamla kenslukerfið settist aftur í öndvegið í mentaskólanum, en slíkt er algerlega úr lausu lofti gripið. Það, sem hann talaði um hvatir mínar, er alger heilaspuni. Til þess að geta sagt um slíkt, þarf að rannsaka bæði hjörtun og nýrun, en þótt þessi hv. þm. (Jak. M.) kunni að vera mikill spekingur, þá efast jeg samt um, að honum sje það fært. Dettur mjer í hug, að hitt hafi heldur ráðið tilgátu hans, að margur heldur mann af sjer.

Það er satt, að jeg flutti upphaflega frv. þess efnis, að embætti þetta yrði stofnað, en þá stóð alt öðruvísi á en nú. Og jeg er ekki einn af þeim þröngsýnu mönnum, er ekki taka neitt tillit til breyttra tíma og breyttrar aðstöðu. Þykir mjer og skylt að taka tillit til radda þeirra, sem hljóma til vor hvaðanæva af landinu, og krefjast þess af oss, að spara eins og unt er. Jeg vil taka tillit til þessara radda, því að jeg er ekki einasta þm. fyrir eitt kjördæmi, heldur fyrir alt landið. Þegar allir í landinu neyðast til að draga saman seglin, þá verður Alþingi líka að gera það. Það er margt nauðsynlegra en þetta embætti, sem menn hafa nú orðið að leggja niður. Sje jeg og ekki, að það sje nein minkun fyrir neinn mann, þótt hann, til knúður af nauðsyninni, breyti afstöðu sinni frá því, sem hún var fyrir nokkrum árum. Og ekki veit jeg, hvort meiri sómi er að því, eins og sumir gera, að líta bara á það, hvað þægilegast er fyrir einstaka menn og einstakar stofnanir hjer í Reykjavík, án þess að taka nokkuð tillit til ástandsins í landinu. Nú stendur svo á, að hver maður verður að neita sjer um alt, sem án verður verið. Á þetta vil jeg líta og haga till. mínum hjer á þingi eftir því.

Verð jeg svo að láta þetta nægja að sinni. Hv. þd. getur nú gert við málið það, sem henni líst. Það, sem hjer er um að ræða, er 3000 kr. árlegur sparnaður. Það hefir ljóslega komið fram, að menn líta misjafnt á, hvort taka beri tillit til slíkra smáupphæða, en jeg ætla undir öllum kringumstæðum að gera það. Jeg lít jafnvel svo á, að á slíkum tímum, sem nú standa yfir, þá hafi hverjar 100 kr. sparaðar sína fullu þýðingu.