30.03.1922
Neðri deild: 36. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í C-deild Alþingistíðinda. (1433)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Bjarni Jónsson:

Aðstaða mín í þessu máli er nokkuð einkennileg, en mjer mun samt leyfilegt að bera fram þakkarávarp fyrir það, sem Bjarna Jónssyni frá Vogi er vel gert.

Það er auðsjeð af till. hv. sparnaðarnefndar, að frv. þetta er ekki komið fram af sparnaðarástæðum. Það hljóta því að liggja einhverjar dýpri ástæður til þess, sem mjer eru ekki kunnar. Hv. nefnd vill áskilja mjer 2500 kr. biðlaun, eða 5000 kr. með dýrtíðaruppbót. Öllum mun vera ljóst, að háskólinn mun biðja mig að halda áfram kenslunni þar, og sjá menn þá í hendi sjer, að jeg mundi ekki taka minna fyrir kensluna en svo, að laun mín yrðu samt hærri en þau nú eru.

Frv. miðar því auðsjáanlega að því að hækka tekjur mínar, og tjái jeg hjer með hv. nefnd þakkir mínar fyrir það. Auðvitað hefði verið beinni leið að hækka launin án allra krókaleiða, en þessi leiðin er líka heiðarleg, svo jeg sje ekkert á móti henni.

Jeg hefi svo ekki annað að segja um þetta mál, en að jeg hrærist af þeirri góðvild, sem hv. sparnaðarnefnd sýnir mjer, er hún mín vegna yfirgefur sparnaðarstefnu sína.