24.03.1922
Neðri deild: 31. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (1438)

65. mál, sameining Árnessýslu og Rangárvallasýslu

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Jeg býst nú ekki við því að þurfa að vera margorður um fjárhagsástæður þær, sem liggja til grundvallar fyrir því, að þetta frv. er fram borið. Allir hv. þm. sjá, að þetta er tilraun til að spara fje ríkissjóðs til embætta, vel að merkja þó þeirra einna, er ekki geta talist nauðsynleg. Sparnaðarandi er nú ríkjandi hjá allmörgum þm. og öllum þorra kjósenda um land alt, svo sem sjá má af þingmálafundargerðum, er liggja hjer frammi í lestrarsal Alþingis. Maður sjer varla svo þingmálafundargerð, eð ekki sje þar bein áskorun til þingsins um að spara svo sem unt er fje ríkissjóðs, og víða er bent á leiðina, sem sje að fækka óþörfum embættum, og draga á þann hátt úr hinni þungu byrði, er á ríkissjóði hvílir, sökum hinna afar fjölmennu embættismannasveitar, sem óneitanlega er að verða þjóðinni um efni og ástæður fram að launa, enda að hundraðstölu óefað hærri en í flestum eða öllum nálægum menningarlöndum. Þetta frv. gengur því í þá átt að lækka þessi útgjöld, þótt að litlu sje. Allir þekkja yfirstandandi fjárhagsvandræði og þarf ekki að þylja neinar tölur til að sanna það. Nú er það svo, að því er snertir þessar 2 sýslur með afstöðu og staðhætti, að það verður ekki sagt, að sameining þeirra sje neinn ógerningur; með öðrum orðum, við flm. álitum, að vegalengdir eða viðlendi sje ekki einum manni ofvaxið til yfirferðar. Sje gert ráð fyrir, að sýslumaðurinn t. d. sitji við Þjórsárbrú, þá er þaðan til ystu takmarka víðast hvar ekki nema um 50 km., en austur undir Eyjafjöll, sem er mesta vegalengdin, um 78 km. Sje aftur gert ráð fyrir, að hann sæti við Ölfusárbrú, sem auðvitað vel getur átt sjer stað, þá munar það ekki mjög miklu, því að milli brúnna munu aðeins vera 20 km. Til samanburðar má geta þess, að frá Húsavík, sem er bústaður sýslumanns Þingeyinga, og út á Langanes eru um 125 km., og frá Vík í Mýrdal til ystu takmarka sýslunnar um 250 km. Þegar líka er tekið tillit til þess, að Suðurlandsundirlendið er eitt veganet, fáar ár illar yfirferðar nema Markarfljót og Þverá, sem munu ekki vera sjerlega vond vatnsföll venjulegast, en í Skaftafellssýslu margar ófærar ár og torfærur, auk afarmikillar vegalengdar sveita á milli, þá verður samanburðurinn því engan veginn til stuðnings, að sameiningin sje nokkur fjarstæða.

Þá kem jeg að öðru atriði, en það er fólksfjöldi sýslnanna. Jeg get hugsað, að mótstöðumenn frv. muni telja það sem aðalástæðu gegn þessu frv. Árið 1920 voru í Árnes- og Rangárvallasýslunum 9500 manns, en til samanburðar má geta þess, að í Ísafjarðarsýslum og Ísafjarðarkaupstað eru íbúar eitthvað nokkuð á 9. þúsund. Þetta er að vísu ekki munur sem mikið er úr gerandi, enda er erfiðleiki sýslumannsembættisins ekki svo mjög kominn undir fólksfjöldanum út af fyrir sig, heldur fjölbreytni atvinnuveganna, og þá ekki síst viðskiftalífinu og siglingunum. En þarna eru atvinnuvegirnir mjög fábreyttir; að allega landbúnaður og sjávarútvegur, þó tiltölulega lítill. Þá skal jeg geta þess, að síðan 1915 hefir fólkinu fækkað um 440, og bendir það til þess, að ef atvinnuvegir og aðrir búnaðarhættir haldast óbreyttir, þá muni íbúatalan ekki vaxa að mun á komandi árum.

Þá er fróðlegt að athuga, hversu tíð málaferli eru í þessum sýslum og hversu margir dómar eru þar upp kveðnir, því að sjálfsögðu baka allar slíkar óeirðir og málsýfingar sýslumönnum mikla fyrirhöfn og tímaeyðslu. En því hefir verið þannig háttað, að árið 1917 var ekkert mál dæmt í Árnessýslu og í Rangárvallasýslu sömuleiðis. Árið 1918 í Árnessýslu 3 sakamál, en í Rangárvallasýslu ekkert. Árið 1919 í Árnessýslu 2 sakamál, dæmd, 3 lögreglumál og 1 einkamál, en í Rangárvallasýslu sama ár 1 sakamál, sem ekki var dæmt, 4 lögreglumál (brot á fjallskilareglugerðinni). Árið 1920 í Árnessýslu 2 einkamál, dæmd, og 1 lögreglumál, en í Rangárvallasýslu sama ár 1 sakamálsrannsókn, 3 alm. lögreglumál og 1 einkamál.

Þetta er þá málafjöldi þessara sýslna, og verður sannarlega ekki sagt, að það sjeu miklar róstur í hjeraði. Að vísu er ekki upplýst, hve mikill málafjöldi er í öðrum sýslum landsins á sama tíma, en ekki er ósennilegt, að í ýmsum sýslum sjeu fleiri mál en jafnvel í þessum báðum til samans, og segi jeg það sýslubúum til lofs, en ekki vansa.

Þá er að líta á siglingar til þessara hjeraða, því að það hefir mikil og margvísleg áhrif á störf sýslumannsins, ef skipaferðir eru þar miklar. En því er nú þannig varið, að til Rangárvallasýslu kemur aldrei neitt skip, og valda því hafnleysur. Í Árnessýslu koma sárafá skip á ári hverju, venjulega 2–4 og eitthvað litið þar yfir, þegar mest er.

Að öllu þessu athuguðu lítum við flm. svo á, að það sje langt frá því að vera ókleift fyrir einn og sama sýslumann að gegna báðum sýslunum, og sje það full alvara þings og stjórnar að fara eftir vilja kjósenda, að fækka embættum, þá skilst mjer, að hjer sje ástæða til breytingar, sem ekki er hægt að ganga fram hjá.

Sjerstaklega má gera sjer von um, að stjórnin leggist ekki á móti þessu frv., því að eitt af aðalatriðunum í programræðu forsrh. (S. E.) var, að stjórnin vildi taka til athugunar, hvort ekki væri hægt að minka embættabákn landsins.

Það mun kannske haft sem mótbára gegn frv. þessu, að þetta mál hafi ekki verið borið undir sýslubúa. En þar til er því að svara, að ekki var leitað til sóknarmanna hjer um árið, er prestaköllum var steypt saman, og það víða þvert á móti vilja og óskum safnaðanna. Það dundi eins og reiðarslag yfir fólkið, og munu sárafáir hafa óskað þeirra breytinga. Þingið áleit að þetta þyrfti að gera, og hjer er hliðstæð ástæða til þessa gagnvart hinu fjölmenna og afarkostnaðarsama „embættismannabákni“.

Jeg skal nú ekki fjölyrða um þetta frekar; býst við að þeir, sem á móti þessu frv. ætla að leggjast, vilji nú fara að fá orðið, og skal jeg ekki standa lengur í ljósi fyrir þeim.