24.03.1922
Neðri deild: 31. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í C-deild Alþingistíðinda. (1439)

65. mál, sameining Árnessýslu og Rangárvallasýslu

Gunnar Sigurðsson:

Jeg get ekki neitað því, að jeg fjell í stafi, er jeg sá þetta frv. sparnaðarnefndar. Mjer datt í hug hið fornkveðna: Hversu lengi ætlar þú að níðast á þolinmæði vorri o. s. frv. Jeg leit í fyrstu með velvilja á starf þessarar nefndar og reyndi að fylgjast með henni, en komst þó brátt að raun um, að tillögur hennar voru hinar fólslegustu og starf hennar myndi eigi geta komið að neinum notum. Til þess vantaði rjetta hugsun og heilbrigða skynsemi í tillögur hennar. Þó verð jeg að segja, að þetta frv. setur kórónuna á alt hennar starf. Það er ákaflega varhugavert að taka einstök atriði út úr ákveðinni heild, án þess að taka nokkurt tillit til heildarinnar. Og hjer hefir nefndin dottið ofan á, ef ekki það allra vitlausasta, þá það næstvitlausasta, sem hægt var að stinga upp á í þessu máli. Það hefði má ske verið enn þá fráleitara að stinga upp á sameiningu Eyjafjarðarsýslu og Vestmannaeyja.

Það er heldur ekki von á góðu, er þetta er borið fram án þess málið sje nokkuð hugsað eða borið undir hlutaðeigendur. Jeg álít það alveg ósæmilegt, að ekki skuli hafa verið leitað álits sýslubúa um þetta mál. Það er þó það minsta, sem hægt er að ætlast til. Annað mál er hitt, að menn eru sjálfráðir, hvort þeir fara eftir því.

Hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) mældi margt í kílometrum, en það var alt út í bláinn og sýndi ókunnugleika hans. Yfirleitt bar öll ræða hans vott um ókunnugleika á undirstöðuatriðum þeim, sem hann bygði á. Jeg hefi nú ekki mælt sýsluna svo nákvæmlega í km., en hygg þó. að lengd þeirra takmarka á milli sje hjer um bil 200 km., og til norðurs ná þær til Sprengisands. Annars skal jeg ekki fjölyrða um þetta, því það er ekkert aðalatriði.

Þá mintist hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) á fólksfjöldann, en bygði að vísu ekki á því. En fyrir mjer er það aðalatriðið. Hvers vegna heldur hann, að bæjarfógetaembættinu hjer í Reykjavík hafi verið skift, nema af því, að bærinn var orðinn of mannmargur til þess að einn maður kæmist yfir að gegna því. Og í Árnes- og Rangárvallasýslum eru 10 þús. manns. Jeg get nú fullyrt það, að sýslumaðurinn í Árnessýslu hefir meira að gera en nokkur annar sýslumaður á landinu. Það vita allir, að embættið hefir verið í hinni mestu óreiðu síðustu ár. Enda kvartar núverandi sýslumaður yfir því, að hann geti varla annað störfum án þess að hafa fulltrúa.

Þá var landafræðivanþekking þm. (St. St.) dálítið einkennileg í laginu. Hann sagði að engar ár væru í Rangárvallas. En jeg get nú talið hjer upp fjölda, svo sem Þverá, Affall, Markarfljót o. m. fl., sem oft eru bráðófærar. (St. St.: Jeg nefndi ár). Já, en ekki fyr en hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) hafði hvíslað því að honum. Mjer dettur í hug skólapilturinn, sem fullyrti, að engar ár og ekkert vatnsfall væru í Rússlandi.

Þá talaði hann svo, sem Rangárvallasýsla væri eitt veganet, en þar er eiginlega ekki nema einn þjóðvegur, Holtavegurinn, og hann er oft svo ófær og illur yfirferðar, að nærri liggur, að póstgöngur stöðvist af þeim ástæðum.

Þá gat hv. frsm. (St. St.) þess, að í þessum sýslum væri enginn sjávarútvegur. Jeg vil nú minna hann á það, að í Árnessýslu eru 2 kauptún, sem til samans eru stærri en Siglufjörður, og væri meiri ástæða til að gera þau að sjerstöku lögsagnarumdæmi, og mun jeg bera fram brtt. um það, ef frv. þetta verður ekki felt frá 2. umræðu. Í þessum kauptúnum er mikill útvegur.

Þá er að minnast á verslunina. Til þessa hefir verslun af Suðurlandsundirlendinu hjer um bil eingöngu verið á Eyrarbakka. Í austurhluta þess, eða Rangárvallasýslu, eru tvö kaupfjelög, sem hafa mestan hluta af versluninni að austanverðu. Þessi kaupfjelög vilja ekki sækja til Eyrarbakka, en hugsa sjer helst að fá skip beint upp á Landeyjasand; hafa þeir nú um tíma fengið skip frá Vestmannaeyjum.

Enn er á það að líta, að Rangárvallasýsla er eitt af elstu og söguríkustu lögsagnarumdæmum á landinu; vil jeg fyrir því í nafni allra Rangæinga mótmæla því, að hún verði lögð undir önnur lögsagnarumdæmi, að minsta kosti ekki án samþykkis íbúanna.

Þá vildi jeg athuga, hver sparnaður mundi verða af þessari samsteypu.

Það er skemst frá að segja, að hann mundi enginn verða. Sýslumaðurinn mundi verða settur á biðlaun til 5 ára, en þá mundi verða að breyta þessu aftur í sama farið, vegna þess, að þá yrði fólkið orðið svo margt, ef nokkuð má af líkum ráða um það.

Það er að vísu rjett hjá hv frsm. (St. St.), að fólkinu hefir fækkað um 400 á síðustu áratugum, en aðalástæða þess er sú, að fólk hefir flust mjög mikið til Vestmannaeyja, einkum úr Rangárvallasýslu, en þetta hlýtur að breytast í náinni framtíð, því Vestmannaeyjar eru orðnar fólksmargar; auk þess vantar þar að mestu landsnytjar; hafa því eyjarskeggjar tekið að leita til lands, til grasnytja, og landbúnaðarafurða, og er líklegt, að það fari í vöxt, en þeir sækja þá mest upp í Rangárvallasýslu. En einkum ef þess er gætt, að þessar sýslu eru bestu landbúnaðarsveitir landsins, er líklegt að fólkinu fjölgi, ef samgöngur batna, þannig, að þessi fyrirhugaða samsteypa hjeldist ekki lengi. Það yrði því enginn sparnaður að henni.

Jeg gleymdi að geta þess, þegar jeg talaði um verslunina í þessum sýslum, að hv. frsm. sagði, að þangað kæmu að eins 5 skip á ári, og þótti honum lítið. Jeg vildi nú benda hv. þm. á það, að þessi skip eru venjulega stór skip, sem koma þangað með heila farma af vörum.

Jeg hefi komið fram með þingsályktunartillögu þess efnis, að stjórnin geri uppkast að fækkun embætta, því jeg hefi sjeð, að hv. sparnaðarnefnd hefir engin tök á því. Þessi till. kemur á morgun fram í deildina. Jeg skal loks geta þess, að jeg tel að lítill vegur hefði verið að sameina Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, því hún er miklu mannfærri, og því minni líkur til þess, að þyrfti að breyta strax aftur; en þetta frv. tel jeg hina mestu endemis fjarstæðu.