24.03.1922
Neðri deild: 31. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í C-deild Alþingistíðinda. (1441)

65. mál, sameining Árnessýslu og Rangárvallasýslu

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Þessir hv. þm., sem tekið hafa til máls, hafa borið svo ört á, að jeg hefi varla haft við að skrifa niður hið helsta.

Hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) byrjaði á því að skýra frá því, að hann hefði fallið í stafi yfir frv. Það er óskaplegur missir og mikill skaði um svo stóran mann.

Hann sagði, að sparnaðarnefndin hefði níðst á þolinmæði sinni og deildarinnar, en taldi sig þó hafa fylgt henni lengst af að málum. En í þessu máli gat hann loks ekki fylgt henni lengur, sem ekki var sjálfsagt fyrir það, að hann mælti þá „staðlausu stafi“ og fjarstæður, er hann gerði.

Hann gat þess, að þekking mín á vegum þarna austur frá mundi lítil vera. Jeg man það mjög vel, þegar jeg fór hjeðan úr Reykjavík fyrir nokkrum árum (1917) austur í Fljótshlíð, að þá var vegurinn ekki verri en það, að við allmargir þm. fórum í bifreiðum alla leið þangað austur. Það mundi því víðast á landinu vera talinn þolanlegur vegur, en þar fyrir austan mun vera mikill minni hl. Rangárvallasýslubúa, svo það yrðu ekki tíðar ferðir fyrir sýslumanninn yfir óbrúuðu vatnsföllin þar austur frá. Vegalengdirnar hjá mjer sagði hann vera fjarri sanni, en gat engar vegalengdir hrakið af þeim, er jeg mintist á, enda voru það ábyggilegar mælingar. Hann sagði, að milli endapunkta sýslnanna beggja mundu vera 200 km. Auðsjáanlega hefir hann litla hugmynd um vegamælingar þar eystra; það er alt á reiki og ekki nema ágiskunin ein.

Jeg hefi sýnt fram á, að ef sýslumaðurinn býr við Ölfusárbrú, þá verður vegalengdin frá austurtakmörkunum að telja tæpir 100 km., en búi hann við Þjórsárbrú, sem jeg verð að álíta að ýmsu leyti hagkvæmara, þá verður þaðan og austur að sýslutakmörkum ekki nema 78 km. leið. Er því ekki eitt orð hrakið af því, sem jeg sagði um vegalengdina, í þessari löngu ræðu hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.).

Jeg mintist alls ekki á Holtaveginn. Það var hv. þm. sjálfur, sem gerði það, enda skilst mjer, að öll hans píslarganga í vegamálunum miðist við þennan eina vegarspotta. Annars er sá vegur sagðar illur yfirferðar, gangi miklar rigningar, en annars er hann allgóður yfirferðar, eftir sögn kunnugra, og kemur það vel heim við það, hve geysimikið fje hefir verið til hans lagt.

Um siglingar til kauptúnanna austan fjalls og útflutning þaðan hafði hann lítið fram að færa á móti því, sem jeg hafði sagt. Jeg hefi hjer fyrir framan mig verslunarskýrslur Árnessýslu, og skal þá leyfa mjer að benda á það, að árið 1920 nam útflutningsgjaldið 2186 kr., og sama ár varð vörutollurinn 6891 kr. Það er næsta undarlegt, ógni mönnum sú vinna, sem fer í að gera svo smávægilegar skýrslur og heimta þessar upphæðir inn. Eða skyldi öðrum sýslumönnum og bæjarfógetum, sem afgreiða skip árlega í tugatali, blöskra annað eins og þetta? Nei, það tekur sannarlega ekki marga daga að gera upp þá reikninga.

Þá er það hv. 1. þm. Árn. (E. E.). Hann hjelt, að jeg miðaði alt við strandlengjuna í vegalengdum þeim, er jeg nefndi. Hann hefir þá ekki heyrt, hvað jeg sagði, eða ekki skilið það, eða þá að hann hefir viljað rangfæra orð mín vísvitandi. Og skal jeg ekkert um það fást, hverju af þessu þrennu er um að kenna, eða hvort því er öllu til að dreifa.

Hann sagði, að í kauptúnunum í Árnessýslu væru 2000 manns. (E. E.: Framt að 2000 manns). Já, framt að 2000 manns, en jeg vil benda honum á, að árið 1920 eru þar tæp 1500 manns, svo að þarna skeikar nokkru hjá háttv. þm. (E. E.).

Hann sagði líka, hv. 1. þm. Árn. (E. E.), að sýslumaðurinn í Rangárþingi þyrfti lítið skrifstofufje. Þetta kemur vel heim við það, sem jeg hefi haldið fram, að einn sýslumaður yfir báðum sýslunum, með hæfilegu fje til skrifstofuhalds, kæmist hæglega yfir að þjóna embættinu, svo þessi röksemdafærsla er mjer eindregið í vil, eða mínum málstað, gagnvart flutningi frv. — Eða máske þeir hafi óvenjumörgum hnöppum að hneppa, sýslumennirnir þarna austur frá? Og hv. 1. þm. Árn. (E. E.) væri vís að gefa upplýsingar um það, hver hafi eftirlit með bankanum eða víxlastofnuninni á Selfossi í fjarveru þm.?

Þessi sami hv. þm. (E. E.) bar saman fólksfjöldann í Dala- og Strandasýslum við fólkstöluna í Árnes- og Rangárvallasýslum. Hún er ekki stærsta atriðið. En hver getur borið saman ferðalög um láglendið þar austur frá og allar torfærurnar og vegalengdirnar í Strandasýslu? Austur frá eru það skemtiferðalög, svo að segja á hvaða tíma sem er, í staðinn fyrir að telja má vegleysur og vonda fjallvegi að ferðast um norður í Strandasýslu.

Þá þótti honum meira vit í því að sameina Skaftafellssýlur Rangárvallasýslu og Suður-Múlasýslu. Um það þykist jeg ekki þurfa að ræða. Aðeins þykist jeg mega fullyrða, að sú breyting mundi síst eiga fleiri meðmælendur en sú, sem hann er nú að óskapast yfir.