24.03.1922
Neðri deild: 31. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í C-deild Alþingistíðinda. (1443)

65. mál, sameining Árnessýslu og Rangárvallasýslu

Þorleifur Guðmundsson:

Það er ekki af því, að jeg þykist þurfa að hjálpa þeim þm., sem mælt hafa á móti frv. þessu, að jeg stend upp. Þeir hafa báðir, hv. 1. þm. Árn. (E. E.) og hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), mælt vel og einarðlega í móti.

En af því, að það stendur á frv. þessu, að það sje fram borið af sparnaðarnefnd, þá lítur svo út, að jeg sje einn af flm. En það er jeg ekki, og þess vegna þarf jeg að segja nokkur orð.

Þegar minst var upphaflega á þetta mál við mig í nefndinni, datt mjer fyrst í hug, hvort ekki mætti spara með þessari sameining, því mjer var ljóst, frá því að jeg var kosinn í þessa sparnaðarnefnd, að okkur var ætlað að benda á allskonar sparnaðarleiðir. En jeg vissi líka, að um leið og við værum að spara fyrir landssjóðinn, urðum við að rannsaka þá hliðina, sem snýr að gjaldendunum, og athuga, hvað tekið væri frá þeim. Og jeg sá, að með þessari samsteypu sýslumannaembættanna, að gerður var órjettur fjölda manna, og því gat jeg ekki skoðað þetta sparnað. Það er ekki sanngjarnt, að þessir sýslubúar borgi eins og aðrir, en missi svo þægindi; á meðan þeir borga í landssjóðinn eins og aðrir, þá eiga þeir kröfu til sömu þæginda og aðrir.

Þetta var nú aðaláslæðan, sem jeg í fljótu bragði sá að mælti í móti þessari samsteypu.

Hv. frsm. (St. St.) mintist á dómana og taldi þá fáa. Það er hverju orði sannara, en dómarnir eru enginn mælikvarði á störf sýslumanna. Þeir geta haft nóg að gera, þó að þeir sjeu ekki altaf að dæma menn í tukthúsið. Þessir fáu dómar lýsa því, að þarna austurfrá eru fáir óknyttamenn og mjög lítil málaferli. Menn lifa þar í góðum friði, og finst mjer óþarfi að vera að finna að því hjer í þingsalnum.

En svo er að líta á það, að báðir þessir sýslumenn eru hraustir enn, og engin líkindi til að þeir láti bráðlega af embætti, og hvorugur þeirra verður víst látinn fara út á gaddinn, fremur en aðrir embættismenn, þó að óþarfir sjeu orðnir. Verður þetta því enginn sparnaður í náinni framtíð.

Það hefir verið sagt um mig, í sambandi við sparnaðartill. mínar, að jeg bæri þær fram vegna kjósenda minna og eitt blaðið hefir skrifað eitthvað þess efnis um mig. Sjeu þessi ummæli borin saman við vilja alþýðu; og þá sjálfsagt minna kjósenda líka., um að láta embættismenn þjóðarinnar hafa sem mest að gera, eða þræla þeim út, ef svo mætti að orði kveða, þá held jeg að ekki verði sagt með rjettu, að jeg í þessu máli sje að hugsa um kjósendaviljann. Auðvitað vil jeg, að embættismennirnir hafi nóg að gera, vinni mikið og vinni vel, en jeg er svo framsýnn, að jeg sje að þessi hjeruð, sem um er að ræða, eiga langt um meiri framtíð en önnur hjer á landi. Jeg sje framtíðarmöguleikana og fólkið fjölga, störfin aukast þegar vonirnar rætast. Og væri þá búið að slengja saman þessum tveim sýslufjelögum, myndi brátt koma í ljós, að sýslumaðurinn heimtaði fulltrúa, fyrst einn, en svo myndi þeim fjölga undirtyllunum, sem hann þættist þurfa að hafa til þess að geta rekið embættið. Þetta byggi jeg á því, hvernig farið hefir, þar sem fólkinu hefir fjölgað, hvort sem það heldur hefir verið um síldveiðitímann á Siglufirði eða annarsstaðar, eins og t. d. hjer í Reykjavík hjá bæjarfógeta og lögreglustjóra.

Hv. flm. (St. St.) mintist á verslunina austanfjalls, þótti hún lítil, og umboðsstörfin þar af leiðandi ekki umfangsmikil. En hann tók til dæmis árið 1920, en eins og búið er að benda á, þá var það ár eitthvert hið rýrasta verslunarár, sem komið hefir yfir okkur þar eystra. Honum hefði verið miklu nær að nefna 1820, og reikna út meðalverslunarmagn austursveitanna á árunum 1820–1920, og þá myndi hann komast að raun um, að meðaltalið sýndi, að meira er út- og innflutt í þessum hjeruðum en nokkursstaðar annarsstaðar á landinu.

Það þarf að bæta samgöngur þessara hjeraða, bæði á sjó og landi, og það hlýtur að gerast á næstu árum. Áveitan mikla stendur fyrir dyrum og í sambandi við hana ótal framtíðarmöguleikar. Mjer myndi því þykja mjög leiðinlegt, ef háttv. þd. samþykti þá áníðslu hjeraðsbúum til handa, með því að steypa saman sýslunum og hafa sýslumanninn t. d. við Þjórsá. Með því yrði t. d. þeim mönnum, sem minstan farkost hafa í Árnessýslu, gert erfiðara fyrir að ná fundi sýslumanns, og kæmi það hart niður á Selvogsmönnum, Eyrbekkingum og Stokkseyringum. Þess vegna verð jeg að mótmæla þessari áníðslu í nafni kjósenda minna.

Hann sagði hjerna á dögunum, hv. frsm. (St. St.), þegar hann var að berjast fyrir Siglufjarðarþm., að hann myndi aldrei hverfa frá því að flytja rjettmætar kröfur kjósenda sinna, og er jeg honum samþykkur um það. En úr því að hann hafði þessa fögru og rjettmætu hugsun á Norðurlandi, virðist mjer lítilmannlegt að hvika frá henni þennan stutta tíma, sem hann dvelur á Suðurlandi.

Jeg ætla að sleppa að þrátta um þessar tölur um fólksfjöldann, enda hafa aðrir borið þær fram á undan mjer.

Jeg vil enda með því að segja: Við eigum ekki að hafa jafnhörð orð um sparnaðarstarfsemi þingsins eins og hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), því sparnaðurinn er það, sem bjargar þingi og þjóð. En við eigum að byggja sparnaðinn í viti og sanngirni. Hv. Alþingi hefir kosið sparnaðarnefndina til þess að spara. En við sparnaðarmennirnir erum skyldugir til að hugsa til botns till. okkar og alt það, sem við viljum láta gera.

Með þessu frv. er verið að draga úr greipum mikils hluta þjóðarinnar rjettindi, er menn telja sjer dýrmæt.

Og jeg vil bæta því við, að þó að við viljum spara, þá megum við ekki verða svo þröngsýnir í till. okkar, að við látum þær verða að skýi, sem byrgir fyrir alla vonarsól á framtíðarhimni okkar. og heldur ekki að flóði, sem drekki allri sparnaðarviðleitni þingsins.

Þarna, austanfjalls, býr kjarni þjóðarinnar. Þaðan má mikils vænta í framtíðinni til blessunar landi og lýð. Þegar þið, hv. þdm., skerðið rjettindi þeirra manna, sem þarna búa eða ætla að búa, þá munið, að þið um leið stingið í hjartastað landsins.