24.03.1922
Neðri deild: 31. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í C-deild Alþingistíðinda. (1447)

65. mál, sameining Árnessýslu og Rangárvallasýslu

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Það er fátt eitt, sem jeg þarf að svara. Út af orðum hv. 1. þm. Árn. (E. E.), er hann sagði, að höfuðástæða mín fyrir sameiningu sýslnanna hefði verið sú, að hjeruðin væru eigi víðáttumikil, skal jeg geta þess, að þetta er misskilningur hjá hv. þm. (E. E.). Eftir að jeg hafði lýst staðháttum þar eystra, nefndi jeg, sem verulegan þátt í þessu máli, fólksfjöldann, og kvaðst búast við, að mótbárum myndi verða hreyft gegn frv. vegna hans. Þetta hefir hv. þm. (E. E.) víst annaðhvort ekki heyrt, eða þá misskilið orð mín.

Þá mintist háttv. þm. (E. E.) á umboðs- og innheimtustörf sýslumanna, og hve þau væru fyrirhafnarsöm. Jeg vissi ofurvel, að sýslumenn hafa innheimtustörf á hendi, en jeg hjelt, að Árnesingar væru þeir skilamenn, að innheimtan yrði sýslumanni þeirra ekki örðug, þar sem þeir hafa bankann við hendina, því þar er þó að minsta kosti hægurinn hjá, að fá lánaða hengingarvíxla.

Hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) var að reikna út, hvað sparnaðarnefndin hefði kostað. Kom þar í ljós, sem áður, að hann er því vanastur að hlaupa á hundavaði yfir málin, og lætur honum það verk allsæmilega.

Þá get jeg ekki stilt mig um að minnast á framkomu hv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.) í þessu máli. Hann er í sparnaðarnefndinni og var í fyrstu eindregið með frv. og tók að sjer að flytja það; get jeg í því falli vitnað til skrifara nefndarinnar, hv. þm. N.-Ísf. (S. St.); en sakir utan að komandi áhrifa milli nefndarfunda, bað hann um lausn í náð frá flutningi þess. En því lofaði hann ótilkvaddur að tala ekki á móti því. En nú hefir hann gerst allhávær hjer í deildinni og talið oss flm. vera að stinga hníf í hjartastað landsins með flutningi þessa frv. Jeg lít svo á, að með slíkri aðstöðu ætti hann ekki að hafa hátt um sig í þessu máli. Jeg ætlaði alls ekki að minnast á þetta, en þegar hann beitir oss meðnefndarmenn sína slíkum vopnum, þá tel jeg ekki fjarri að segja allan sannleikann um framkomu þm. (Þorl. G.) í þessu sameiningarmáli.

Það hefir aldrei verið meining okkar, flm., að sparnaður yrði að þessu nú þegar, og aldrei ætlast til þess, að sýslumönnunum yrði kastað út á gaddinn. Fyr en annaðhvort embættið losnar, er sameiningin auðvitað óframkvæmanleg.

Jeg legg eindregið á móti því, að dagskráin verði samþ., og tel rjett, að hv. deild ræði þetta mál við 3 umr. Auk þess mun spurning um, hvort hún grípur ekki inn í frv. það, sem hv. þm. Str. (M. P.) flytur hjer í deildinni, um sameining Dala- og Strandasýslna, en væri svo þá þykir mjer illa við eiga að draga það úr höndum hans, meðan hann er veikur, og því fjarstaddur.