27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

1. mál, fjárlög 1923

Fjármálaráðherra (Magn.J.):

Af þeim brtt., sem fram hafa komið, eru aðeins fáar, sem snerta embætti mitt eða fjárhag ríkisins sjerstaklega. Fyrsta brtt. á þskj. 153 er um það að fella niður útflutningsgjald. Háttv. fjvn. hefir þegar látið í ljósi skoðun sína um það mál, og er jeg henni samþykkur.

Jeg tel ekki rjett að fella niður þetta gjald nú. Hitt getur verið álitamál, hvort rjett hafi verið í fyrstu að setja þetta ákvæði inn í 2. gr. fjrl., þegar gjaldið var ekki lögheimilað fyrir 19'23. En fyrst þetta var gert, sje jeg enga ástæðu til að breyta því nú. Þótt þessi brtt. væri samþykt, væri breytingin í rauninni ekki önnur en sú, að tekjuliðurinn mundi koma fram aftur samkvæmt 23. gr. fjárlaganna.

Hæstv. atvrh. (Kl.J.) hefir þegar minst á I. brtt. á þskj. 157. Hann tók það fram, hvernig bifreiðaskattinum sje varið og hvernig þar af leiðandi verði að færa hann í fjárlögunum. Þetta getur gefið mönnum tilefni til þess að athuga alment, hvernig vísa eigi til í fjárlögunum, hvort eigi að færa upp „brúttó“ ; t. d. ef um síma er að ræða, hvort þá eigi að færa upp allar tekjur og öll gjöld, það er brúttó, eða menn vilja færa upp „nettó“, það er aðeins tekjuafgang.

Sama er að segja um bifreiðaskattinn; annaðhvort verður að færa hann allan til tekna, og þá líka til gjalda, samkvæmt lögunum fyrir þessum skatti, eða færa hann netto, en þá yrði hann = 0, eða fjelli niður, eins og brtt. fer fram á.

Eins og hæstv. atvrh. (Kl.J.) tók fram, er þessi skattur ekki talinn til gjalda í fjárlagafrumvarpinu, og þá má ekki heldur telja hann tekjumegin.