24.03.1922
Neðri deild: 31. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í C-deild Alþingistíðinda. (1450)

65. mál, sameining Árnessýslu og Rangárvallasýslu

Gunnar Sigurðsson:

Út af orðum hv. 1. þm. Eyf. (St. St.), að jeg færi á hundavaði, er jeg reiknaði út kostnað þann, er sparnaðarnefndin hefði í för með sjer, skal jeg geta þess, að hann var síst of hátt reiknaður. Var það af hlífð við nefndina, því að jeg var henni hlyntur í fyrstu, þótt það gæti ekki orðið til lengdar, er jeg sá, hvert stefndi. Annars þarf hv. frsm. (St. St.) ekki að bregða mjer um neinn hundavaðshátt, því að ef um alvarleg og íhugunarverð mál er að ræða, þá set jeg mig eins vel inn í þau og hver annar. Hitt er annað mál, að þegar svona ómerkileg og fyrirfram dauðadæmd mál koma fyrir, þá vil jeg ekkert um þau hugsa, en segi bara: Burt með þau!

Mjer þótti vænt um að heyra, að hv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.) lýsti yfir því, að hann áliti sig ekki kosinn í sparnaðarnefndina til þess, að hann hætti að hugsa. Það er augljóst, að maðurinn er að vakna og er farinn að sjá, að nokkur ljóður er á ráði samnefndarmanna hans í þessu falli. Í þessu sambandi dettur mjer í hug, að jeg heyrði það nýlega, að símameyjar væru látnar ganga undir gáfnapróf, áður en þær eru teknar til starfans. Mjer finst nú ekki vanþörf á því, að sparnaðarnefndin verði látin ganga undir slíkt gáfnapróf, áður en hún ungar út fleiri frv. hjer í deildinni.