03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í C-deild Alþingistíðinda. (1457)

65. mál, sameining Árnessýslu og Rangárvallasýslu

Eiríkur Einarsson:

Það sannast á hv. 1. þm. Eyf. (St. St.), að hann kennir eigi fyr en kemur að hjartanu. Það kveður nú dálítið við annan tón hjá honum, síðan brtt. kom fram.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta mál, en skal taka það fram, að brtt. háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) og hv. samþingismanns míns (Þorl. G.) hefir við langt um meiri rök að styðjast en till. háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.).

Jeg býst nú við, að menn telji það ekki mikla ástæðu, að annað er nýgræðingsstaður, en hinn fornfrægur menningarstaður með höfuðbólum, svo sem Haukadal og Odda. En jeg býst við, að menn liti á, að þessar sveitir eru grasgefnastar á öllu landinu og bestir landskostir, og því ástæða til, að fólkinu muni fremur fjölga þar en fækka, ef landbúnaðurinn á nokkra framtíð fyrir sjer, En aftur á móti um Siglufjörð er engin ástæða til að ætla, að fólkinu fjölgi þar, enda meira en vafasamt, hversu heillavænlegt það væri fyrir land og lýð. —

Jeg er hissa á, að háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) skuli hafa borið þessa till. fram, því jeg hjelt, að hann hefði betur vit á því, hvaða þýðingu landkostir hafa fyrir alt landið, en þó að fólkinu hafi lítið eitt fækkað á síðustu árum í þessum sýslum, rjett undir handarjaðrinum á Reykjavík, er það engin sönnun fyrir því, að svo verði í framtíðinni, heldur er þvert á móti alt útlit fyrir, að þessar sveitir eigi mikla framtíð fyrir höndum.

Jeg hefi ekki neina trú á, að frv. um sameining þessara sýslna nái fram að ganga, og þótt brtt. sje miklu nær sanni, hefi jeg samt ekki heldur trú á, að hún verði samþykt. Það er ekki hægt að vænta þess, að slíkar breytingar, sem þessir sparnaðaryfirskinspostular gera af slíku handahófi, geti blessast. Jeg mun því leyfa mjer að bera fram rökstudda dagskrá um að eyða málinu, því það er alveg ástæðulaust að taka svona fyrir einstök lögsagnarumdæmi til sameiningar. Það er ekki til annars en að eyða þingtímanum, og er betra að slík frv. verði skorin niður þegar í stað, og þar með komið í veg fyrir þýðingarlausar málalengingar.

Jeg skal með leyfi hæstv. forseta lesa upp þessa rökstuddu dagskrá:

Með því að embættasameining sú, sem frv. gerir ráð fyrir, verður að teljast ósanngjörn, miðað við þá heildarskipun, sem nú er á sýslumannaembættum hjer á landi, og þar eð auðsætt er nú þegar, að frv. nær ekki framgangi á þinginu, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Jeg geri það vísvitandi, að skýra ekki frá, að stjórnin hafi á stefnuskrá sinni lagfæring embættaskipunarinnar, því úr því hún hefir lýst yfir því, er óþarfi að taka það fram.

Jeg þykist vita, að hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) muni nú vilja falla frá þessari flausturstill. sinni, eftir að brtt. er komin fram, enda mundi þetta frv. verða felt í Ed., þótt það kæmist í gegn um þessa hv. deild.

Jeg vona því, að hv. deildarmenn samþykki þessa rökstuddu dagskrá.