03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í C-deild Alþingistíðinda. (1461)

65. mál, sameining Árnessýslu og Rangárvallasýslu

Eiríkur Einarsson:

Hv. 1. þm Eyf. (St. St.) vjek ekki einu orði að dagskránni, og þykir mjer vænt um það, að hann er henni ekki mótfallinn. En hann skaut nokkrum örvum til mín og talar um rökfærslur mínar, en það þykir mjer nú koma úr hörðustu átt, þar sem er hv. 1. þm. Eyf. (St. St.); það er varningur, sem hann hefir ekki að jafnaði á boðstólum. Með lygndum augum og geistlegri hógværð kvað hann ómögulegt að koma auga á mín rök. En þar sem hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) er kem jeg auga á mann, sem telur sjer fært að hafa í frammi ósvífni við þá, er hann á í höggi við, í skjóli hinnar kennimannlegu mærðar og kindarsvips. Jeg hefi einmitt leitt rök að mínu máli, tekið það skýlaust fram, sem er meginatriði og á að ráða um stærð lögsagnarumdæmanna: fólksfjöldi, fjölbreytni atvinnuvega og í þessu sambandi framtíðarhorfur.

Jeg sagði, að ef stefnt væri í rjetta átt, hlyti að reka að því, að í bestu grasræktarhjeruðunum hlyti að fjölga fólki og framfarir verða. En Siglufjörður aftur á móti er sá kaupstaðurinn, sem stundar einna ísjárverðasta og óheillavænlegasta atvinnuveginn, og dylst víst engum, að síldarútgerðin er beggja banda járn.

Það er því engin ástæða til að fara mjúkum höndum um þann kaupstað, og væri nær að athuga, hversu heillavænlegur atvinnuvegurinn er og hvernig siðferðisástandið er þar, áður en farið er að hlynna sjerstaklega að honum á kostnað bændastjettarinnar. Enda finst mjer æði einkennilegt, ef sýslurnar syðra ættu að gjalda þess, að þar búa friðsamari menn en á Siglufirði, og taka nauðsynleg yfirvöld frá sveitabændum sunnanlands, en rækta aftur gorkúlur á drafhaugum síldarinnar.

Hvað snertir flatarmál sýslnanna, þá held jeg að það sje ósannað mál, að suðursýslurnar sjeu nokkuð minni en norðursýslurnar, enda sje jeg ekki hvað það kemur þessu máli við. En það liggur í augum uppi, að þessar sýslur eiga mikla framtíð fyrir sjer og að fólkinu muni fjölga þar, enda nú í uppsiglingu að bæta samgöngur þangað og leggja járnbraut austur, og er því furða, að hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) skuli leyfa sjer að bera fram annað eins frv. og þetta. Þetta hefir verið tekið fram, en hinn sljói maður þarf að heyra það endurtekið.