03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í C-deild Alþingistíðinda. (1462)

65. mál, sameining Árnessýslu og Rangárvallasýslu

Sigurður Stefánsson:

Sparnaðarnefndinni kemur það ekki á óvart, þó till. hennar fái ekki góðar viðtökur.

Hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) talaði um það við 1. umr., að till. sparnaðarnefndar gengju vitfirru næst, og að hún mundi þurfa að ganga undir gáfnapróf, en jeg hygg að þeim hv. þm. (Gunn. S.) væri nær að líta í sjálfs sín barm. Hann hefir nú nýlega greitt atkv. með tveim till., sem hann hefir lýst yfir að hann væri „principielt“ á móti. Jeg held því, að það væri hyggilegra fyrir hann sjálfan að ganga undir gáfnapróf áður en hann greiðir atkvæði um fleiri mál þvert ofan í sína sannfæringu.

Hann sagði, að í þessum sýslum væri graslendi mikið. Það hefir enginn neitað því, en jeg held ekki að það muni minka neitt, þó þar væri ekki nema einn sýslumaður, nema það sje meiningin, að þessir tveir sýslumenn sjeu eða verði í framtíðinni þeir afskaplegir grasræktarfrömuðir, að á þeim velti öll framtíðargrasrækt á Suðurlandsundirlendinu. Jeg get heldur ekki sjeð, að fólkinu muni fækka neitt fyrir þessa ráðstöfun. Geti hann fært rök að því, hefir rökvísi hans farið stórum fram upp á síðkastið. Eða býst hann kannske við, að sýslumennirnir fjölgi mest fólkinu þar eystra?

Suðurlandsundirlendið, einkum Árnessýsla, hefir hingað til verið þyngsti ómagi ríkisins, þrátt fyrir graslendisframtíðarmöguleikana, sem sífelt er verið að japla á. Þessi langi ómagaháls styttist þó dálítið við þá embættafækkun, sem hjer er um að ræða, án þess að ríða í minsta bága við grasrækt þessara hjeraða.

Um brtt. á þskj. 164 verð jeg að segja það, að jeg vil ekki spara þar, sem sparnaðurinn mundi verða hinn mesti ósparnaður, en svo er hjer. Fyrst og fremst er gert ráð fyrir, að setja þurfi lögreglustjóra yfir sumarið, og þá fer nú kúfurinn af, en auk þess eru launin fljót að fara í lakari innheimtu, þar sem veltan er jafnmikil og á Siglufirði. Fyrir nokkrum árum voru tekjur ríkissjóðs um 400000 kr. af síldveiðum á Siglufirði. En hvað ætli ríkistekjurnar af Árnes- og Rangárvallasýslum hafi þá verið? Líklega svo sem 10–12 þús. kr. Á Siglufirði veitir ekki af lögreglustjórn og tollstjórn alt árið. Jeg skrifa ekki undir þá visku, þó komin sje austan yfir Hellisheiði, að síldveiðarnar sjeu mesti óheillaatvinnuvegur landsins. Hann getur vitanlega brugðist, en það geta fleiri atvinnuvegir gert. Annars held jeg, að flm. þessarar brtt. (Gunn. S.) veiti ekki af að ganga undir gáfnapróf, áður en hann ungar út fleiri till. jafngáfulegum.