03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í C-deild Alþingistíðinda. (1463)

65. mál, sameining Árnessýslu og Rangárvallasýslu

Eiríkur Einarsson:

Jeg hefi aldrei haldið því fram, að ekki mætti fækka sýslumönnum vegna ræktunar landsins, eins og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) var að gefa í skyn. Hitt lagði jeg áherslu á, að skifting verður nokkuð að miðast við fólksfjölda, og þar sem landið er gott og vel fallið til ræktunar, þar á ekki að færa kvíarnar saman yfirleitt, og þar getur maður helst vænst þess, að fólki fjölgi. Ástæður mínar eru því aðrar en þær, að vel grói í kringum embættismennina, þótt slík kunni að vera reynslan vestra. Þessi sami hv. þm. (S. St.) var að glósa með það, að austursýslurnar væru ómagar á landinu. Jeg játa, að hagur þar er erfiður nú, eins og víðar, og fólki hefir aðeins fækkað á síðustu árum, en vill hv. þm. ekki líka athuga aðstöðuna. Þær eru hjer nærri hinum sogandi höfuðstað, sem dregur til sín fólkið. Og mjer virðist nær að athuga það, hvort rjettara er að beina fólksstraumunum þangað, sem ræktunarskilyrði eru góð og hægt að lifa af landinu, eða hingað á mölina, eða þá í hæpinn síldarútveg. Mjer virðist nú síldarreynslan ekkert glæsileg. Og mig hálffurðar satt að segja á hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) að láta hafa sig út í þetta. Hann er þó bóndi fyrst og fremst, en hinn maðurinn prestur, til nokkurrar afsökunar á skilningsleysi hans á veraldarefni.