03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í C-deild Alþingistíðinda. (1464)

65. mál, sameining Árnessýslu og Rangárvallasýslu

Gunnar Sigurðsson:

Jeg hafði hálfgaman af ræðu hv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Hann var auðsjáanlega að nota sjer það, að jeg er dauður, nema hvað forseti hefir leyft mjer þessa örstuttu athugasemd.

Jeg fer því ekki út í annað en þar sem hann rjeðst á mig fyrir að hafa greitt atkv. öðruvísi en í fyrra. Jeg skýrði það nú um leið og það mál, útflutningsgjaldið, var á dagskrá, að það væri eingöngu til þess að forðast hinn gífurlega tekjuhalla, er annars yrði. Og þetta er ekki sett nema til eins árs, enda lýsti jeg því um leið, að skoðun mín á málinu væri óbreytt. Hún endist lengur en árið. En mjer þótti þetta koma úr hörðustu átt, þar sem þessi hv. þm. (S. St.) er þektur að því að snúast og hringsnúast eins og skopparakringla á hverju þingi, eins og jeg sannaði eftirminnilega á hann í grískudocentsmálinu um daginn. Þar snerist hann þrisvar á sama þingi, og nú í fjórða sinn, en þetta er aðeins eitt af örfáum dæmum. Jeg lái honum ekki, þótt hann tali um sparnað, en það er þreytandi að heyra altaf sömu sparnaðarræðuna vikulega eða jafnvel daglega. Hún fer nú að missa áhrifin úr þessu, sparnaðarræða hv. þm. (S. St.). Og af þessu verður nú áreiðanlega enginn sparnaður, því að sýslumaðurinn mundi fá biðlaun í 5 ár, en að þeim tíma liðnum eða fyr mundi búið að fjölga aftur.

Hvað snertir þau ummæli þm. (S. St.), að jeg þyrfti að ganga undir gáfnapróf, þá vil jeg svara honum því, að jeg er svo ungur, að mjer gæti farið fram með gáfur, og yrði þá um framfaragáfnapróf að ræða hvað mig snertir, þar sem verða mundi afturfararpróf um hann.

Að Suðurlandsundirlendið sje ómagi á landinu, þar mun þm. (S. St.) eiga við vegalagningu um hjeruðin; en mætti jeg spyrja hann, hvað austursýslurnar fá til hafna og strandferða. Nei, örin geigar eins og venjulega hjá hv. þm. N.-Ísf. (S. St).

Hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) vil jeg leyfa mjer að minna á það, að í þessu margumrædda snjóflóði á Siglufirði skemdust þar bryggjur og mörg fleiri mannvirki, svo að tjónið nam eigi litlu fje. Það skiftir engu, hvoru megin fjarðarins það fjell, úr því að það olli skemdum á eignum kaupstaðarbúa.