27.02.1922
Neðri deild: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í C-deild Alþingistíðinda. (1470)

29. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Flm. (Magnús Pjetursson):

Jeg skal ekki fara að karpa um þetta mál við hv. þm. Dala. (B. J.), enda býst jeg ekki við, að því verði ráðið til lykta við þessa umr. Hins vegar vænti jeg þess, að hv. deild leyfi því að fara til nefndar.

Jeg get þó ekki stilt mig um að drepa lítið eitt á eitt eða tvö atriði í ræðu hv. þm. Dala. (B. J.). Hann ljet í veðri vaka, að jeg virtist hafa löngun til að nauðga Dalamönnum; en það er fjarri því, að svo sje. Jeg veit satt að segja ekki til, að komið hafi fram neinar upplýsingar um vilja Dalamanna í þessu máli síðan á þinginu 1919. — Hjer er ekki að ræða um neinn ofsóknarhug í garð þeirra. Man jeg ekki betur en að á þinginu 1919 væri einmitt rætt um það, að komið gæti til mála, að önnur sýslan vildi samsteypuna, en hin ekki, og var gert ráð fyrir, að Alþingi yrði þá að skera úr, hvorn viljann bæri að meta meir.

Það er annars altaf sama sagan, sem endurtekst. Menn tala mikið um, að spara þurfi með því að leggja niður embætti, en þegar svo til kastanna kemur, er enginn fús á að afsala sjer sínum embættismanni. Nú hafa Strandamenn komið sjer saman um að gera sitt til að þetta nái fram að ganga, — enda er þeim enginn stórbagi að. Vænti jeg þess, að hv. þm. Dala. taki meira tillit til ástandsins nú heldur en hvaða landnámsmenn hafa bygt sýslu þessa. Það er fjarri því, að jeg geri þetta að gamni mínu, heldur er það nauðsynin, er rekur hjer á eftir. Hv. þm. Dala. (B. J.) kvað það hart, ef svifta ætti Dalamenn yfirvaldi sínu mót vilja þeirra, en samskonar kemur fyrir nær því á hverju ári, að Alþingi neyðist til að neita ýmsum hjeruðum eða hjeraðshlutum um að fá embættismenn eða stofnuð þau embætti, sem þeir óska eftir. Þeir yrðu því í engu ver úti en ýmsir aðrir.