27.02.1922
Neðri deild: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (1471)

29. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vildi aðeins láta uppi ástæðuna til þess, að jeg leitaði ekki álits sýslunefndar Dalamanna um þetta mál. Jeg var þess fullviss, að sýslubúar myndu mótmæla sameiningunni, og fanst mjer slíkt yfirklór enga þýðingu hafa. Annars skal jeg játa, að það má vel vera, að taka mætti fleiri sýslur og steypa saman, en milliþinganefnd sú, sem um málið átti að fjalla, kom nú ekki með till. um fleiri en þessar. — En það er altaf sama sagan. Ef á að fækka embættum, t. d. prestsembættum, þá rísa menn upp sem einn maður og neita að missa prestinn sinn, en um annara presta er þeim ósárt.

Mjer finst óheppilegt, að sparnaðarnefndin skyldi ekki vera kosin í deildinni. Mál þetta hefði þá strax getað komið fyrir hana, en eins og nú er ástatt, er það ekki mögulegt.