27.02.1922
Neðri deild: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (1472)

29. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Bjarni Jónsson:

Jeg get vel orðið sammála hæstv. forsrh. (J. M.) í þessu efni, hefi sjálfur áður fyr bent á, að hugsanleg væri sú leið, að leggja niður sýslumannaembættin, en hafa í þeirra stað fjórðungsdómara. En það er nokkuð vafasamt, hvort mikill sparnaður yrði að því, því tollheimtan kæmi þá á aðrar hendur, og ef til vill yrði það fyrirkomulag engu ódýrara. Þetta mál þarf því vandlegrar athugunar við áður en unt er að taka nokkra ákvörðun í því. — Mjer þótti vænt um, að hæstv. forsrh. (J. M.) vildi ekki fara að spara í þessu einstaka atriði, er ástæðan er jafnmikil eða meiri á mörgum öðrum sviðum, enda oft ósjeð, hvað til sparnaðar verður í framtíðinni, þó í svipinn sýnist svo. Auk þess trúi jeg trauðla, að sá sýslumaður, sem nú er, verði rekinn fyrirvaralaust og sviftur launum.

Jeg ímynda mjer, að Strandamenn mundu ekki vera svo áfram um þetta, ef þeim væri betur til sýslumanns síns og hann sæti ekki á enda sýslunnar.

Þó síldveiði hafi um stund verið slök í Strandasýslu, er þó ekki svo að jafnaði, heldur mikil síldveiði þar, og ef sýslumaður væri þá til á staðnum, mætti spara sjer lögreglustjóra. En ef sýslumaðurinn sæti í Dalasýslu, væri slíkt óframkvæmanlegt, og yrði þá að setja nýjan lögreglustjóra, svo sparnaðurinn yrði meira í orði en á borði. Finst mjer nær að láta sýslumanninn sitja annarsstaðar, þar sem hann kemur betur að haldi — Þá hefir sú breyting orðið á síðan frv. kom síðast fram, að ein helsta jörðin í Dalasýslu hefir verið gefin landinu og fengin sýslumanninum til ábúðar. En hann er búmaður góður, og er jörðin vel setin með honum sem ábúanda. Þykir mjer undarlegt ráðlag hjá Alþingi, ef það færi að svifta hann jörðinni, og óvíst, hvort yrði meiri hagur að því en þótt honum væri lofað að sitja í friði.

Menn verða og að hafa hugfast, að búast má við mikilli síldveiði í Strandasýslu á næstu árum, og þá yrði alls ekki nægilegur einn sýslumaður fyrir báðar sýslurnar, en ef sýslumaður Strandasýslu sæti á rjett völdum stað, myndi hann einnig geta haft á hendi störf lögreglustjóra.

Sparnaðurinn yrði heldur ekki svo mikill, ef aðeins ætti að drepa niður á þessum eina stað.

Háttv. þm. Str. (M. P.) sagði, að núlifandi menn færu ekki mikið eftir því, hvernig menn hefðu verið á landnáms- tíð. En hann á eftir að sanna, að eigi sje jafnmikill munur á Dalamönnum og öðrum landsmönnum nú og þá var. En jeg verð að halda fram, að svo sje.