27.02.1922
Neðri deild: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í C-deild Alþingistíðinda. (1474)

29. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Bjarni Jónsson:

Eins og jeg tók fram áðan, geta menn ekki sjeð neitt svar við ræðu minni í þingtíðindunum 1919, heldur eingöngu hvernig ekki átti að svara henni.

Hvað viðvíkur, að sýslumaðurinn hafi lengi setið á þessum stað, þá skal jeg ekki rengja það, en jeg hygg, að það hafi verið farið fram á við hann, að hann sæti annarsstaðar, en hann ekki fengist til þess.

Um mannjöfnuðinn skal jeg geta þess, að jeg held því fram í fullri alvöru, að það sje nú jafnmikill munur á Strandamönnum og Dalamönnum, sem var á landnámstíð. En að háttv. þm. Str. (M. P.) vill fara í mannjöfnuð við mig, þykir mjer að eins vænt um, því að jeg hefi altaf farið vel með hann, þegar jeg hefi haft hann undir minni hendi.