27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

1. mál, fjárlög 1923

Sigurður Stefánsson:

Hv. frsm. fjvn. (B.J.) byrjaði ræðu sína á því, að allháværar raddir heyrðust hjer á þingi um það, að fjárhagur landsins væri kominn í kaldakol. Þetta hefi jeg samt ekki heyrt fyrri. og svo mun um aðra þm. Hjer í þingsalnum hefir enginn sagt, að fjárhagurinn væri í „kaldakoli“ fyr en háttv. frsm. (B.J.). En áður en við fórum að heiman til þings var víða um það rætt, að fjárhagur landsins væri erfiður og kominn í öngþveiti.

Á þetta hefir oft verið minst í háttv. deild, bæði af stjórninni og einstökum þm., og allir verið sammála um það, að úr þessu þyrfti að bæta. Fyrst og fremst var það hæstv. fráfarin stjórn, sem bæta vildi úr fjárhagsörðugleikunum, og í sama strenginn tók háttv. fjvn., er hún færðist það í fang að láta fjárlagafrv. frá sjer fara tekjuhallalaust, með því að minka stórum öll gjöld ríkissjóðs og fella niður suma þá liði, sem áður stóðu með hæstum upphæðum.

Það þarf því enginn ágreiningur að vera um fjárhagsörðugleikana, þegar grípa verður til slíkra óyndisúrræða eins og þetta fjárlagafrv. ber með sjer, þótt jeg hinsvegar viðurkenni bæði viðleitni stjórnarinnar og háttv. fjvn. í sparnaðaráttina.

Öðru máli er að gegna um þá menn, sem með hnúum og hnefum hafa barist og berjast á móti till. sparnaðarnefndar; þeim get jeg að minsta kosti lítið þakkað.

Því verður ekki neitað, að sparnaðarnefndin hefir fengið allharða og ómilda dóma. En þó hafa slíkir sleggjudómar ekki bitið á hana, því hún veit sig hafa fylgt hinu forna spakmæli: „Gerðu rjett og óttastu engan mann“. Að vísu þykist hún vita, að í nefndinni sjeu misvitrir menn eins og annarsstaðar, en hún hefir viljað gera skyldu sína og lagt áherslu á það, sem hún taldi hollast landi og lýð.

Það gladdi mig, að háttv. frsm. (B.J.) kallaði sparnaðarnefndina „búkonu“, því betra nafn gat hann ekki valið henni. Mörg ráðdeildarsöm og stjórnsöm búkonan hefir bjargað fjárhag heimilisins, þó að bóndinn væri ráðlaus og eyðsluseggur. Og mjer er nær að halda, að ýmsum háttv. þdm. veitti ekki af að eiga slíka búkonu, því ekki eru þeir allir svo ráðdeildarsamir, að þeim sje trúandi fyrir fjármálum landsins, og er rjett fyrir háttv. frsm. (B. J.) að stinga þessu hjá sjer.

Þá vil jeg með nokkrum orðum snúa mjer að brtt. okkar meiri hl. sparnaðarnefndar.

Um utanfararstyrk hjeraðslækna er það að segja, að nefndin ætlast ekki til, að hann falli niður fyrir fult og alt, þótt hún leggi til, að hann verði feldur niður næsta fjárhagsár.

Nefndin viðurkennir fyllilega, að læknar muni geta haft gott af því að fara utan til frekari þroska í ment sinni, þó hún hinsvegar líti svo á, að engu sje spilt með því að fella styrkinn niður um eitt ár, þegar ríkissjóður hefir í jafnmörg horn að líta eins og raun ber vitni og eins lítið á milli handanna; og nefndin getur ekki fallist á það, að mörgum mannslífum sje teflt í voða, þótt frestað verði að veita styrkinn um sinn, eins og kastað hefir verið fram í umræðunum.

Mjer dettur í hug nýi vitinn, sem sumir lögðust á móti að bygður væri, og leyfi mjer því að spyrja: Gæti ekki frestun á byggingu slíks vita við eina stærstu veiðistöð landsins valdið meira tjóni og kostað fleiri mannslíf en þó að þessum utanfararstyrk til hjeraðslækna væri frestað um eitt ár?

Þess vegna held jeg þetta hvorttveggja sje ekki vel athugað af þeim, sem lagst hafa á móti því.

Þá eru það fjallvegirnir. Jeg skal játa, að mjer var það óviljugt að fella þá niður, en sá þó, að það var í samræmi við niðurfellingar á nauðsynlegum fjárveitingum, eins og t. d. til símans. Annars gladdi mig að heyra álit hæstv. atvrh. (Kl.J.) um símana, og vona jeg að hann með sínum alkunna dugnaði fái því máli borgið til heppilegra framkvæmda. Jeg vil aðeins grípa tækifærið og benda á það, að Hesteyrarsíminn kemur til með að borga sig. Á þennan stað koma flest fiskiskip landsins, og er því mikils virði fyrir þau að fá þarna símasamband, enda myndi það fljótt koma í ljós, að það yrði mikið notað. Jeg var ekki tilbúinn að greiða atkvæði um þetta mál við 2. umr. Þess vegna gleður mig, að þessar upplýsingar eru fram komnar.

Um fjallvegina er það að segja, að við 2. umr. fjárlaganna kom fram brtt. um að fella niður allar flutningabrautir og þjóðvegi. Sú brtt. var feld og var jeg einn meðal þeirra, sem atkv. greiddu á móti henni. Þess vegna finst mjer undarlegt, að þeir hinir sömu, er fella vildu niður nauðsynlegustu vegina, rjúki upp og hamist á móti því, þó að sjaldförnustu vegirnir verði látnir bíða um sinn. Þessir vegir, sem aldrei eru farnir nema um hásumarið, og það af örfáum mönnum, ættu því að geta beðið í bili, og það að ósekju. Jeg held einmitt, að þennan lið megi helst spara, úr því að skorið er við neglur sjer fje til allra nauðsynlegustu framkvæmda.

Jeg skal vera fáorður um breytingartillögu sparnaðarnefndar um skólagjöld fyrir innanbæjarnemendur, en vil þó benda á þann ósegjanlega mun fyrir menn utan af landi að kosta syni sína og dætur í skólum hjer í Reykjavík á móts við bæjarmenn.

Síðastliðið vor gengu 33 ungmenni undir inntökupróf í gagnfræðadeild mentaskólans, og af þeim voru einir 12 utanbæjar. Hinir voru allir Reykvíkingar. Jeg er ekki að mæla á móti því, þó að bæjarmenn noti sjer þetta, en mjer finst ekkert órjettlæti í því, þó að Reykvíkingar borgi 100 krónur í eitt skifti fyrir öll fyrir þau hlunnindi að vera svo nærri skólanum. Það er ekki einn tíundi af því, sem bændur eða sveitamenn lengst utan af landi þurfa að borga fyrir dvöl barna sinna við skólann. Þessar 100 krónur eru eini kostnaðurinn, sem bæjarmenn þurfa að greiða, þegar bændur verða að borga 1000 kr. eða kannske meira. Þetta getur því ekki skoðast ranglæti, eins og sumir hafa haldið fram, heldur þvert á móti.

Og þegar þess er gætt, að mentaskólinn er að rifna vegna aðsóknar bæjarmanna og við borð liggur að stækka hann, þó að jeg viti nú ekki hvernig stjórnin eigi að framkvæma það á næstu árum, eins og fjárhagnum er komið, þá held jeg að rjettara sje að finna einhver þau ráð, sem minkuðu aðsókn að honum í bili.

Við þurfum áreiðanlega fremur á sterkum höndum og hraustum líkömum að halda, til þess að leggja hönd á plóginn í framleiðslunni.

Skólagangan hjer er hlutfallslega meiri en í öðrum löndum, og reynslan sýnir, að margra ára nám dregur úr starfsafli manna til líkamlegrar vinnu. Jeg þekki þetta sjálfur. Jeg vann á skólaárum mínum, en fann líka, að jeg ónýttist við skólagönguna. Það er enginn að tala um að fella niður alla æðri mentun í landinu. En hún getur orðið of mikil.

Það má vera, að hart sje að miða skólagjaldið við innanbæjarmenn eingöngu, en sjaldan held jeg að það mundi valda tjóni nje vera órjettlátt. Væri þá enda bættur skaðinn, þó að menn þessir tækju upp þarflega vinnu í stað þess að ganga mentaveginn, því að nóg er orðið um embættafjöldann, og það svo, að talað er um embættabáknið, sem ljetta verði af þjóðinni.

Um Blönduósskólann er það að segja, að mjer finst skilgreiningin á styrknum til sveitastúlkna, til viðbótar við allan skólastyrkinn, vera grímuklædd aukin styrkveiting til skólans, því að hann gengur ekki til stúlknanna sjálfra.

Hefði jeg viljað ganga miklu lengra í þessu, en jeg sá mjer það ekki fært, því það er eins og rekinn sje hnífur í þetta Reykjavíkurkjördæmi, ef eitthvað á að spara, sem það snertir.

Þá er till. um það að fella niður iðnnemastyrkinn. Jeg skal fúslega játa, að það er leitt að þurfa þess, en fjárhagur ríkisins heimtar það, að sparað, sje á öllum sviðum. En það skal tekið fram, að ætlast er til, að þetta sje ekki til fulls, heldur aðeins meðan fjárhagsörðugleikarnir eru svo miklir sem þeir nú eru. Það er sagt, að þetta sjeu þörfustu skólarnir. Þeir eru sjálfsagt þarfir, en þetta er viðkvæðið um þá alla, ef eitthvað á að spara við þá. Það er sama viðkvæðið og heyrist þegar beðið er um styrk til einstakra manna. Þá er ætíð sagt, að þetta sje bráðefnilegur maður og líklegur til að verða landi sínu til mesta gagns. Hefir þetta stundum ræst, en oft, því miður, ekki.

Meira skal jeg ekki lengja umr. Svara hnjóðsyrðum til sparnaðarnefndar engu.

Jeg vil spara umr. sem annað. Jeg heyri, að hæstv. forsrh. (S.E.) hlær. Hann má það gjarna, en mjer finst, að það sitji síst á stjórninni, þó að talað sje um sparnað, því að hún hefir hann á stefnuskrá sinni. En vera má, að ekki verði minni hláturinn þegar efndirnar á þeim sparnaði koma. Háttv. þm. Dala. (B.J.) má einnig hlæja; á honum tekur enginn mark.