04.04.1922
Neðri deild: 40. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í C-deild Alþingistíðinda. (1486)

29. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Gunnar Sigurðsson:

Nokkur orð viðvíkjandi brtt. á þskj. 116. Það er alveg rjett, að jeg skrifaði fyrirvaralaust undir nál. allshn., af því að jeg skoðaði þessa sýslusameiningu gerlega. Annars lýsti jeg því yfir, og munu meðnefndarmenn mínir viðurkenna það, enda bókað í fundarbókina, að jeg lít svo á, að breytingu á lögsagnarumdæmum landsins eigi aðeins að gera eftir föstu kerfi. Legg jeg ekkert kapp á brtt. þessa nú, og þeim mun síður, sem sú fjarstæða er risin upp af henni, að háttv. sparnaðarnefnd hefir lagt til, að sameinuð yrði Árnes- og Rangárvallasýsla.

Háttv. frsm. (J. Þ.) lagði áherslu á það, að sameiningin færi fram svo fljótt sem unt væri. En jeg hygg, úr því ekki sparast neitt á því í bili, að ekki geri neitt til, þótt það dragist um eitt ár og sje nú vísað til stjórnarinnar. Rjettara væri og að leita álits sýslubúa, því þótt Dalamenn sjeu yfirleitt mótfallnir sameiningu, þá getur verið, að af illu tvennu kjósi þeir fremur að sameinast t. d. Barðastrandarsýslu, og gefst þeim þá kostur að segja til um það.

Að lokum verð jeg svo að geta þess, að mjer þótti vænt um að heyra, er hv. frsm. (J. Þ.) talaði áðan um, að ósanngjarnt væri að sameina Árnes- og Rangárvallasýslu. Er gott að vita, að hann er á móti því í hjarta sínu, þótt hann hafi reynst linur mótstöðumaður þess í framkvæmdinni.