07.04.1922
Neðri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í C-deild Alþingistíðinda. (1489)

29. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Bjarni Jónsson:

Mig langaði til að segja nokkur orð, áður en gengið er frá þessu frv. hjeðan úr deildinni. Það er öllum kunnugt, að stjórnin hefir lýst yfir því, að hún ætlaði að taka til rannsóknar, hvort ekki væri hægt að fækka embættum, og þá tekur sú rannsókn líklega meðal annars til þess, hvort ekki muni hægt að fækka lögreglustjórum. Þá getur verið, að till. hennar fari í bága við þetta frv., að stjórnin komist að þeirri niðurstöðu, að hentugra væri að fækka lögreglustjórum á annan hátt. Eða þótt hún vildi sameina þessar sýslur, þá vildi hún sameina þær á annan hátt, eins og hjer kom fram við síðustu umræðu þessa máls, bæði hjá mjer og frsm. nefndarinnar (J. Þ.), að heppilegra væri að sameina Dalasýslu annari sýslu en Strandasýslu. Það gæti t. d. komið til mála að sameina norðurhluta Strandasýslu við Ísafjarðarsýslu, en syðri hlutann Húnavatnssýslu. Jeg nefni þetta aðeins sem dæmi upp á það, sem til mála getur komið, en þá eru þessi lög þröskuldur í vegi fyrir till. stjórnarinnar, og þyrfti að breyta því á næsta þingi. Það er heldur engin ástæða til að ætla, að sameiningin verði komin á áður en stjórnin kemur fram með sínar tillögur, og er því ekki ástæða til að hrapa að neinu. Þá skal jeg geta þess, að jeg hefi fengið nýtt skeyti, er sýnir ljóslega vilja Dalamanna í þessu máli. Skeytið er dagsett 7. þ. m., kl. 942 sent af stað, og er svohljóðandi:

„Öll sýslunefndin í Dalasýslu mótmælir á aðalfundi sínum í dag, 6. apríl, eindregið og kröftulega sameining Dalasýslu og Strandasýslu. Sýslunefndin.“

Jeg les þetta upp hjer til að sýna, að það er ekki uppspuni úr mjer, að Dalamönnum sje þessi sameining þvert um geð.

Jeg vil því leyfa mjer að bera hjer fram svohljóðandi rökstudda dagskrá:

Stjórnin hefir lýst yfir því, að hún ætli sjer að rannsaka, hvort fækka megi embættum, og gera tillögur um það. Þar sem nú vel getur farið svo, að sameining sú, sem hjer ræðir um, fari í bága við það kerfi, er stjórnin á sínum tíma vildi leggja til, þá telur deildin óhyggilegt að láta þetta mál ganga fram og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.